Tónlistarguðsþjónusta

Tónlistarguðsþjónusta verður á sunnudaginn kemur, þann 1. september kl. 11:00. Þá mun hljómsveitin Tilviljun leika létta og skemmtilega tónlist. Auk sóknarprests mun sr. Kjartan Jónsson sóknarprestur í Tjarnaprestakalli þjóna fyrir altari og prédika. Er sérstaklega vænst þátttöku fermingarbarna og fjölskyldna, en fermingarbörn úr báðum prestaköllum – þ.e. úr Víðistaðasókn, Ástjarnarsókn og Kálfatjarnarsókn – hafa sótt fermingarnámskeið hér í kirkjunni nú í vikunni. En allir eru að sjálfsögðu velkomnir!

Gjöf til íbúa sóknarinnar

Undanfarna daga hefur verið borin út kveðja frá Víðistaðakirkju til allra íbúa Víðistaðasóknar í tilefni 25 ára vígsluafmælis kirkjunnar þann 28. febrúar sl. Ákveðið var af þessu tilefni að ráðast í útgáfu á kynningarbæklingi um hin einstöku listaverk sem prýða kirkjuna – freskumyndirnar eftir Baltasar Samper.

Margir leggja leið sína í kirkjuna til að líta verkin augum og þar á meðal erlendir ferðamenn og listunnendur. Bæklingurinn nýi er bæði á íslensku og ensku – og var orðin nokkur þörf á að gefa út slíkan bækling þar sem eldri bæklingur var eingöngu á íslensku og þar að auki löngu uppurinn.

Er það von sóknarnefndar og starfsfólks kirkjunnar að þessari gjöf kirkjunnar til íbúa sóknarinnar verði vel tekið – og megi jafnframt verða hvatning til fólks að heimsækja kirkjuna, skoða freskumyndirnar og taka þátt í starfi kirkjunnar.

Nýr organisti

Ráðinn hefur verið nýr organisti við kirkjuna, Helga Þórdís Guðmundsdóttir og tekur hún við þann 1. september nk. er Árni Heiðar Karlsson lætur af störfum. Helga Þórdís hefur lokið kantorsprófi og einleiksáfanga á orgel frá Tónskóla Þjóðkirkjunnar. Hún lauk áður kennara og burtfararprófi á píanó frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og stundaði post graduadenám í píanóleik í Barcelona. Helga hefur framhaldspróf í einsöng og réttindi sem grunn- og framhaldsskólakennari. Undanfarin ár hefur hún starfað sem organisti við Ástjarnarkirkju hér í Hafnarfirði. Sem organisti mun Helga Þórdís halda utan um allt tónlistarstarf kirkjunnar, leika á orgelið við helgihald og stjórna bæði kirkjukór og barnakór. Er hún boðin velkomin til starfa.

Hjólreiðamessa

Kirkjan er lifandi samfélag og tekur því stöðugum breytingum. Margskonar nýbreytni og endurskipulagning setur mark sitt á starf hennar. Sóknum landsins hefur til dæmis verið skipt upp í samstarfssvæði og eru Hafnarfjörður og Garðabær eitt slíkt svæði.

Nú er sumar gengið í garð og margir vilja njóta útvistar og tilbreytingar í lífinu. Þessi breyting á lífsháttunum hefur einnig áhrif á kirkjustarfið. Til að efla samstarf og kynni hafa prestarnir á svæðinu reglulega með sér fundi. Sýnilegur árangur af þessum fundum kemur fram í  “Hjólreiðamessu” næsta sunnudag þann 16. júní.

Hjólreiðamessan er gott tækifæri fyrir fjölskyldur að sameinast um nýbreytni. Allir sæmilega stálpaðir sem hafa aðgang að reiðhjóli geta tekið þátt í dagskránni um leið og notið er útivistar og hollrar hreyfingar. Gefst þá um leið tækifæri til að  skoða aðstæður í öðrum söfnuðum, en mikill menningarauki er að hinu fjölbreytta starfi safnaðanna.

Hjólreiðamessan hefst kl. 10.00 á tveimur stöðum, Ástjarnarkirkju í Hafnarfirði og Vídalínskirkju í Garðabæ. Garðbæingar mega líka hjóla suður á Velli og leggja upp frá Ástjarnarkirkju, en hóparnir hittast í Hafnarfjarðarkirkju og halda áfram þaðan.

Að þessu sinni er meiri áhersla lögð á hreyfingu og útivist heldur en helgihaldið og verður því staldrað stutt við í kirkjunum. Einn messuliður og sálmur eru á dagskrá í hverri kirkju eins og sjá má í auglýsingunni hér í Fjarðarpóstinum.

Einnig er velkomið að koma inn í hjólahópinn þar sem hentar, en allir eru hvattir til að nota hjálma og fara með fullri varúð í umferðinni. Ætti þetta að verða góður undirbúningur fyrir hátíðahöld þjóðhátíðardagsins.

Sjá dagskrá með tímasetningum hér fyrir neðan: