30 ára vígsluafmæli Víðistaðakirkju

Vígsluhátíð

DSC04696b.900Kór Víðistaðasóknar og Helga Þórdís Guðmundsdóttir organisti.   Ljósm.: Halldór Víkingsson

Þann 28. febrúar síðastliðinn voru 30 ár liðin frá vígslu Víðistaðakirkju. Í tilefni vígsluafmælisins var haldin hátíðarguðsþjónusta í kirkjunni sunnudaginn 25. febrúar sl. að viðstöddu fjölmenni. Séra Kristján Valur Ingólfsson vígslubiskup prédikaði og séra Bragi J. Ingibergsson sóknarprestur þjónaði fyrir altari með aðstoð messuþjóna kirkjunnar. Kór Víðistaðasóknar söng undir stjórn Helgu Þórdísar Guðmundsdóttur organista og var meðal annars frumfluttur nýr sálmur eftir sr. Braga við lag Helgu Þórdísar af þessu tilefni. Eftir guðsþjónustuna var gestum boðið til hátíðar- og veislukaffis í safnaðarsal kirkjunnar.

DSC04713b.900Sr. Kristján Valur Ingólfsson vígslubiskup prédikar.           Ljósm.: Halldór Víkingsson

Ávarp sóknarprests

DSC04689b.900Sr. Bragi J. Ingibergsson.                                               Ljósm.: Halldór Víkingsson

Í ávarpi sínu til safnaðarins þakkaði sóknarprestur þeim fjölmörgu sem komið hafa að uppbyggingu kirkju og safnaðarstarfs allt frá stofnun sóknarinnar árið 1977. Færði hann starfsfólki og sóknarnefndarfólki fyrr og nú innilegar þakkir fyrir störf þess í gegnum tíðina, svo og öðrum sjáfboðaliðum eins og messuþjónum, sem starfað hafa við kirkjuna í 10 ár, og sömgfólki í kórum kirkjunnar. Þá lagði hann áherslu á mikilvægi starfa Systrafélags kirkjunnar og alls þess sem félagskonur hafa lagt af mörkum til uppbyggingar kirkju og þá sérstaklega safnaðarheimilisins í gegnum tíðina. Sagði hann það starf seint fullþakkað.

Einnig þakkaði hann forvera sínum sr. Sigurði Helga Guðmundssyni fyrir að marka brautina og byggja upp söfnuð og kirkju í nýstofnaðri sókn, arkitektum kirkjunnar hjónunum Óla G. H. Þórðarsyni og Lovísu Christiansen fyrir fallegt guðshús og Baltasar Samper fyrir hans einstöku listaverk – freskumyndirnar sem prýða veggi hennar og hafa vakið verðskuldaða athygli í gegnum tíðina og draga fólk enn að til að skoða og njóta.

Í lok máls síns sagði hann það þó skipta mestu máli þegar fagnað væri að horfa fram á veginn og leggjast öll á eitt við að byggja enn frekar upp kirkjuna – sem hús en þó miklu fremur sem hinn kristna söfnuð. Byggja upp og efla starfið innan veggja hússins og á meðal safnaðarins, því þar er hin eiginlega kirkja Krists á jörðu.

 DSC04723.900

Helga Ragnheiður Stefánsdóttir og Ragnar Z. Guðjónsson messuþjónar lesa bænir.    Ljósm.: Halldór Víkingsson

DSC_0231.900Gylfi Ingvarsson messuþjónn les ritningarlestur.             Ljósm.: Þóroddur Skaptason

Ávarp sóknarnefndarformanns

Hjörleifur Þórarinsson, sóknarnefndarformaður, sagði í ávarpi sínu í lok guðsþjónustunnar að sóknin stæði í mikilli þakkarskuld við allt það góða fólk sem ruddi brautina í safnaðarstarfinu og skóp þá umgjörð sem kirkjan býr við í dag. Sjálfboðaliðar sem störfuðu á fyrstu árum sóknarinnar hefðu lyft grettistaki við byggingu Víðistaðakirkju. Nefndi hann sérstaklega séra Sigurð Helga Guðmundsson sóknarprest og Einar Sveinsson sem var formaður sóknarnefndar á byggingartíma kirkjunnar.

Hann sagði að sóknarnefnd og byggingarnefnd hafi fengið dyggan stuðning frá bæjarráði Hafnarfjarðar, Jöfnunarsjóði sókna Þjóðkirkjunnar og frá fyrirtækjum og einstaklingum. Og enn þann dag í dag sé kirkjan að njóta stuðnings þessara aðila sem beri ævinlega að þakka.

 DSC_0246

Hjörleifur ásamt stjórnarkonum í Systrafélaginu Kristínu Ósk Kristinsdóttur, Lilju Matthíasdóttur og Sigríði G. Jónsdóttur.                 Ljósm.: Þóroddur Skaptason

Vegleg gjöf Systrafélagsins

Systrafélag Víðistaðakirkju gaf kirkjunni veglega peningagjöf í tilefni af vígsluafmælinu og var gjöfin, ein milljón króna, formlega afhent í hátíðarguðsþjónustunni á sunnudaginn. Tók Hjörleifur við gjöfinni og þakkaði þeim systrum vel fyrir og nefndi að allt frá árinu 1980 hefði Systrafélagið styrkt kirkjuna og safnaðarstarfið rausnarlega með peningagjöfum og með aðstoð við fermingarundirbúning. Peningarnir hafi m.a. verið notaðir til kaupa á innviðum og búnaði kirkjunnar og safnaðarsals – og á sínum tíma í vinnulaun Baltasars við gerð freskumyndanna í kirkjunni.

DSC_0250.900

Hjörleifur Þórarinsson og Gunnar Hólmsteinsson.          Ljósm.: Þóroddur Skaptason

Gjaldkeri í 41 ár

Gunnar Hólmsteinsson var heiðraður í lok guðsþjónustunnar fyrir fórnfúst og gott starf á vettvangi Víðistaðakirkju. Gunnar var kjörinn í fyrstu sóknarnefnd kirkjunnar og skipaður gjaldkeri hennar. Því hlutverki hefur hann gegnt alla tíð síðan eða í 41 ár. Tryggð hans, árvekni og umhyggja fyrir velferð safnaðarins er einstök.

DSC04725b.900Karl Kristensen meðhjálpari les lokabæn.                        Ljósm.: Halldór Víkingsson

Comments are closed.