Víðistaðakirkja-pano

Kirkjan

Sóknin stofnuð

   Víðistaðasókn varð til þann 1. janúar árið 1977 er skipting Hafnarfjarðarprestakalls tók formlega gildi, voru sóknarmörkin ákveðin við Reykjavíkurveg þannig að hin nýja sókn næði yfir byggðina þar norðan og vestan við og er svo enn.

Fyrsti safnaðarfundur Víðistaðasóknar var haldinn þann 18. janúar árið 1977.  Sr. Garðar Þorsteinsson prófastur setti fundinn og var helsta mál á dagskrá að kjósa fyrstu sóknarnefndina.  Að því loknu hófust umræður og m.a. annars um mögulega staðsetningu safnaðarheimilis og kirkju fyrir söfnuðinn í framtíðinni og nefndi sr. Garðar sérstaklega svæði nálægt Víðistaðaskóla.

Þann 13. mars sama ár fóru fram prestskosningar í söfnuðinum og var sr. Sigurður H. Guðmundsson kjörinn og síðan skipaður fyrsti sóknarprestur í Víðistaðaprestakalli frá 1. maí 1977.

Í fyrstunni var engin aðstaða í sókninni fyrir safnaðarstarf, þó söfnuðurinn hefði áfram afnotarétt af Hafnarfjarðarkirkju fyrir helgihald og athafnir.  Þess vegna var strax farið að huga að hentugu húsnæði fyrir safnaðarheimili.  Fljótlega hófust samningaviðræður við DAS um afnot af sal í dvalarheimilinu Hrafnistu við Skjólvang sem enduðu með því að þar var nýtt safnaðarheimili vígt  1. sunnudag í aðventu þann 27. nóvember 1977 af biskupi Íslands herra Sigurbirni Einarssyni.

Undirbúningur kirkjubyggingar

   Í byrjun árs 1978 fóru fyrir alvöru af stað umræður um fyrirhugaða byggingu kirkju og safnaðarheimilis og jafnframt kannaðir þeir staðir sem til greina þóttu koma.  Á sóknarnefndarfundi ári síðar þann 12. febrúar var síðan helst rætt um staðarvalið og var nefndin „sammála um að mæla með hjallanum fyrir ofan Víðistaðatúnið, þar sem sláturhúsið stendur nú.”  (Fundargerðabók Víðistaðasóknar, 32. fundur 12. feb. 1979)

Þann 17. maí sama ár var síðan ákveðið á fundi nefndarinnar að leita til Óla G. H. Þórðarsonar arkitekts að teikna kirkju fyrir söfnuðinn og tók hann hönnunina að sér ásamt eiginkonu sinni Lovisu Christiansen innanhússarkitekti.

Það var síðan 12. júní sem bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti „að svæði ofan gömlu lýsisbræðslunnar í landi Víðistaða skuli ætlað fyrir kirkju og safnaðarheimili Víðistaðasóknar.”  (Fundargerðabók Víðistaðasóknar, 34. fundur 27. ág. 1979)

Víðistaðir

   Á þessum stað stóð áður býlið Víðistaðir, sem dró nafn sitt af víðinum sem óx í hrauninu.  Til er gömul þjóðsaga um tilurð þessa svæðis sem nefnt er Víðistaðatún.  Sagan segir að þar hafa smali frá Görðum gætt fjár og hafi eitt sinn gleymt sér í eigin hugarheimi þegar hann uppgötvaði að hraun var farið að renna þar nærri og hafði lokað leið hans.  Sagt er að hann hafi þá lagst á bæn og beðið að féð sem honum hafði verið trúað fyrir sakaði ekki; og svo fór að hraunið hlóðst upp í kringum Víðistaðatún svo smalanum og fénu var borgið.

Þetta er þó aðeins þjóðsaga, því vitað er að þar sem Víðistaðatúnið liggur var áður eyja.  Hraunið rann síðan umhverfis eyjuna, sem síðar blés upp og jarðvegurinn fauk út í hraunið, en eftir var sléttlendi þar sem túnið er nú.

Margvísleg starfsemi hefur verið á Víðistöðum í gegnum tíðina og má þar nefna lýsisbræðslu og sláturhús.  En nú stendur þar falleg kirkja,- miðstöð safnaðarstarfsins í Víðistaðasókn.

Víðistaðakirkja

   Fyrsta skóflustungan að nýju kirkjunni var tekin á sumardaginn fyrsta 23. apríl 1981,- og framkvæmdir við bygginguna hófust í kjölfarið.  Á næstu árum var unnið við verkið og lögðu þar margir aðilar hönd að verki.  Byggingarnefnd var sett á laggirnar til þess að halda utan um framkvæmdir og fjáröflunarnefnd til þess að afla fjár til verksins.

Þótt kirkjubyggingin væri ekki komin langt á veg í upphafi árs 1982 var þá þegar farið að huga að listskreytingum í kirkjuna.  Sóknarpresturinn sr. Sigurður Helgi átti samtal við listamanninn Baltasar Samper og í framhaldi af því var undirritaður samningur við hann 20. apríl um gerð freskumynda í kirkjuna.  Það liðu hins vegar nokkur ár þar til byggingin var komin á það stig að listamaðurinn gæti hafið verk sitt en það var á haustmánuðum 1986.

Þannig miðaði framkvæmdum hægt en örugglega áfram.  Það var síðan í byrjun árs 1988 að þær voru komnar á það lokastig að hægt væri að taka húsið í notkun og fór vígsla Víðistaðakirkju fram sunnudaginn 28. febrúar árið 1988.

Við hönnun kirkjunnar var haft í huga mikilvægi þess að hægt væri að samnýta sem best rými kirkjunnar í safnaðarstarfinu.  Í kirkjuskipinu rúmast um 380 manns en hægt er að opna inn í safnaðarsalinn og auka þannig rýmið fyrir um 120 manns til viðbótar.  Einnig er hægt að sitja á svölum yfir miðju kirkjuskipinu.  Þá var gert ráð fyrir því að hægt væri að opna inn í kennslustofu til að auka rýmið enn frekar, en þar á eftir að koma fyrir rennihurð í þeim tilgangi.

Miðað við upphaflegar hugmyndir arkitekts kirkjunnar er byggingunni ekki enn lokið.  Það stóð ávallt til að reisa klukkuturn við kirkjuna og hefur verið unnið að undirbúningi þess á undanförnum árum en óvíst hvenær hægt verður að ráðast í framkvæmdina.

Kirkjan á 30 ára vígsluafmæli þann 28. febrúar 2018 og á þessum árum hefur Víðistaðakirkja, fallegt hús á góðum stað, sett svip sinn á umhverfið í sókninni og öðlast fastan sess í hugum Hafnfirðinga.  En fyrst og fremst hefur kirkjan þó verið góð umgjörð um allt það starf sem unnið hefur verið söfnuði til blessunar og Drottni til dýrðar á þessum stutta tíma í sögu kristninnar.

Bragi J. Ingibergsson tók saman