Samþykkt sóknarnefndar og sóknarprests Víðistaðakirkju 9. september 2015:
Móttaka flóttamanna í Hafnarfirði
Sóknarnefnd og sóknarprestur Víðistaðakirkju lýsa yfir fullum stuðningi við samþykkt fjölskylduráðs Hafnarfjarðarbæjar, frá 2. september síðastliðnum, um þátttöku í því mikilvæga verkefni að taka á móti og aðstoða hópa flóttafólks.
Víðistaðakirkja býður fram aðstoð sjálfboðaliða og starfsfólks auk aðstöðu í kirkju og safnaðarheimili, eftir því sem við á. Þá býður sóknarprestur upp á sálgæsluþjónustu eins og þörf krefur.
Víðistaðakirkja mun einnig, ásamt öðrum söfnuðum Þjóðkirkjunnar, efna til samskota í kirkjunni sunnudagana 13. og 20. september nk. til stuðnings Hjálparstarfi kirkjunnar í starfsemi sinni innan ACT – Alliance á Sýrlandi og Jórdaníu.
Hjálparstarf kirkjunnar er aðili að Alþjóðahjálparstarfi kirkna ACT – Alliance sem ásamt því að vinna að þróunarsamvinnu veitir neyðaraðstoð í kjölfar náttúruhamfara og vegna vopnaðra átaka. Aðstoðin er veitt án skilyrða og aðgreiningar og fer fram eftir alþjóðlegum stöðlum um neyðaraðstoð og ströngum siðareglum. Hjálparstarf kirkjunnar veitir neyðaraðstoð vegna stríðsátaka á Sýrlandi í gegnum ACT þar sem leitast er við að uppfylla grunnþarfir hinna stríðshrjáðu. Áhersla er lögð á vernd og aðstoð til handa konum og börnum á vergangi í landinu og flóttafólki í nágrannalöndunum.