Altari-pano

Freskumyndir

   Allt frá vígslu Víðistaðakirkju 1988 hafa hinar miklu freskumyndir sem prýða veggi hennar vakið mikla athygli, enda um einstæð listaverk að ræða. Það tók listamanninn Baltasar Samper um 2 ár að undirbúa gerð myndanna, enda augljóslega mikil forvinna að baki bæði guðfræðileg og við skissugerð þar til endanlegu takmarki var náð. Uppsetning myndanna tók hins vegar ekki svo mjög langan tíma, því Baltasar málaði þær á röskum þremur mánuðum frá hausti 1986 og til 9. janúar 1987 er hann lauk verki sínu.

Hér á þessari síðu má sjá myndir af freskunum með stuttum texta þar sem myndirnar eru skýrðar í helstu atriðum. Stuðst er við grein sr. Sigurðar H. Guðmundssonar fv. sóknarprests Víðistaðakirkju „Freskumyndir í Víðistaðakirkju”. Þess skal getið að þær myndir sem hér birtast sýna þó ekki freskurnar í heild sinni og því nauðsynlegt að koma í kirkjuna til að njóta þeirra til fulls.

Bakgrunnur myndanna í Biblíunni eru sæluboð Frelsarans í Fjallræðunni: „Þegar Jesús sá mannfjöldann, gekk hann upp á fjallið. Þar settist hann, og lærisveinar hans komu til hans. Þá lauk hann upp munni sínum, kenndi þeim og sagði: „Sælir eru…..””

Þegar kirkjugestir ganga inn í kirkjuna sjá þeir Jesú Krist á myndinni fyrir miðju, ofan við altarið. Jesús brosir, enda flytur hann fagnaðarerindið og réttir um leið upp hönd sína til þess að leggja áherslu á orðin er hann mælir til fólksins,- fólks sem er af báðum kynjum og á öllum aldri. Allir virðast hlýða á hann, þó ein konan snúi sér frá honum. Þannig talar hann til áheyrenda á öllum tímum um leið og hann miðlar birtu sannleikans inn í heiminn, eins og myndin ber með sér svo björt og geislandi.

„Sælir eru fátækir í anda, því að þeirra er himnaríki.” Þessi mynd er vinstra megin við altarismyndina. Ljósið er þar einnig miðlægt; engill heldur hátt á lýsandi kyndli sem fólkið í kring teygir sig eftir. Fólkið er ólíkt innbyrðis, sumir klæddir í föt samtíma Jesú en aðrir á nútímavísu, í hópnum eru tveir menn blindir og eitt barn. Fólk allra tíma og aðstæðna sem þráir birtu ljóssins sem skín í myrkrinu en myrkrið meðtekur ekki. En um leið má í geislum þess finna lausnina, fyrirheitið um Guðsríki.

„Sælir eru þeir, sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu, því að þeir munu saddir verða.” Þessi mynd táknar hungur í tvennum skilningi,- hið líkamlega og hið andlega hungur. Engill færir fólkinu brauðið sem er tákn saðningarinnar, í veraldlegum heimi sem og hinum trúarlega. Þeirri gjöf miðlar síðan fólkið hvert til annars í keðjuverkandi samhjálp. Um leið er skortur heimsins undirstrikaður í myndum vannærðra barna, aldraðra og þeirra er þurfa á umönnun að halda. Okkur er rétt brauðið eins og í kærleiksmáltíðunum í frumkristni, en þurfum að gera okkur grein fyrir mikilvægi þess að um leið og við þiggjum þurfum við að gefa, því í slíkri breytni trúar og kærleika er fólgið fyrirheitið um réttlæti.

„Sælir eru friðflytjendur, því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða.” Á veggjum sitt hvoru megin við kór kirkjunnar er myndir sem tákna sæluboðin „sælir eru friðflytjendur” og „sælir eru sorgbitnir”. Í þeim má finna andstæður en þó jafnframt einingu. Annars vegar er fæðing og hins vegar dauði, rísandi sól og minnkandi tungl. Í þeim andstæðum er þó einingin fólgin, því Drottinn er upphafið og endirinn, alfa og ómega. Á myndinni vinstra megin við kórinn sjáum við sæluboðið um friðflytjendur í umgjörð fæðingarinnar. Engillinn flytur gleðitíðindin um fæðingu Frelsarans sem fela í sér fyrirheitið um frið: „Friður á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknun á.” Engillinn er sendiboði friðarins og með boðskap hans fylgir birta,- birta sólarinnar sem hækkar á lofti og birta hins sanna ljóss sem komið er í heiminn í litla barninu í jötunni. Kristur er fæddur til þess að færa mönnum frið, með því að breiða ljós yfir myrkur og líf yfir þann dauða sem sem stendur á bak við engilinn og er ávallt nálægur í jarðnesku lífi. Frelsun Guðs í Kristi er fyrir alla á öllum tímum, eins og viðstaddir eiga að tákna. Við jötuna eru vitringarnir þrír, sem jafnframt því að tákna heimsálfurnar sem þá voru þrjár þekktar, eru hér settir í táknrænt hlutverk hinna ólíka einstaklinga safnaðarins sem lúta Drottni á hverjum tíma.

„Sælir eru sorgbitnir, því að þeir munu huggaðir verða.” Hægra megin við kór kirkjunnar og prédikunarstólinn er mynd þar sem sjá má er Kristur er tekinn niður af krossinum. Þeir sem elskuðu hann og báru umhyggju fyrir honum halda á honum. Í hópi þeirra má sjá tvo munka, annan kristinn og hinn úr hópi Tíbetmunka. Nálægð þeirra undirstrikar að Kristur dó ekki aðeins fyrir sína eftirfylgjendur heldur alla menn á öllum tímum. Bakatil stendur engill, sem er tákn ferjumannsins sem ber andann aftur til Guðs. Máninn endurvarpar birtu frá sólinni yfir sviðið, annars væri myrkur. Kristur er upprisinn og sendir okkur geisla hins eilífa lífs inn í myrkan heim. „Sælir eru hjartahreinir, því að þeir munu Guð sjá.” Á þessari mynd standa saman nokkrir af snillingum sögunnar í hinum ýmsu listgreinum. Þeir túlkuðu hver á sinn hátt með verkum sínum og hreinni list þá andlegu fegurð sem ber fagnaðarboðskap Guðs vitni; og leyfðu um leið þeim náðargjöfum sem Guð gaf þeim í upphafi að njóta sín í einstökum listaverkum orða, tóna og mynda. Þarna má sjá Bach sem skapaði mörg stórkostlegustu verk tónlistarsögunnar. Michaelangelo stendur þar með hamar myndhöggvarans og fjöðurstafinn því hann var einnig skáld. Einnig eru myndir af tónskáldunum Mozart og Beethoven sem sömdu mörg kirkjuleg tónverk sem lyfta andanum í hæðir. Spænski málarinn Velaskues er hinn fimmti á myndinni, en hann málaði margar fagrar helgimyndir. Þessir menn sköpuðu allir mörg af fallegustu listaverkum heims, en hér eiga þeir þó fyrst og fremst að tákna það sem hvert og eitt barn Guðs með sínum hæfileikum getur lagt fram af hreinu hjarta honum til dýrðar. „Sælir eru hógværir, því þeir munu jörðina erfa.” Á veggnum vinstra megin við mynd fæðingarinnar má sjá hvar Jesús kemur ríðandi á asna inn í Jerúsalem, sem er ein sterkasta mynd hógværðarinnar sem til er. Hann kemur ekki sem voldugur konungur á glæsilegum gæðingi, heldur á asna, afkvæmi áburðargrips. Fólk á öllum aldri fylgir honum, en fremst fer barnið sem enn á til þá einlægni og auðmýkt sem nauðsynleg er í tjáningu trúarinnar. Barnið getur minnt á orð Jesú: „Nema þér snúið við og verðið eins og börnin munuð þér alls ekki komast inn í Guðsríki”. „Sælir eru þeir, sem ofsóttir eru fyrir réttlætis sakir, því að þeirra er himnaríki.” Þessi mynd er lengst til vinstri í kirkjunnni og á henni reynir listamaðurinn að túlka þær ofsóknir sem við þekkjum úr sögunni, þar sem illskan virðist stjórna hug og hönd gerendanna. Fórnarlömbin virðast hvergi óhult fyrir ofsóknunum. Kona er á flótta með barn sitt full angistar eins og flóttafólk allra tíma. Maður er tekinn af lífi án dóms og laga af illvikja sem hefur hulið andlit sitt svo fórnarlambið fái ekki einu sinni þekkt ofsækjanda sinn, sem hvarvetna fylgist með. Frá varðturninum eru vakandi augu sem fylgjast með öllu og vald hins illa er fljótt að grípa með sínum stóru afmynduðu krumlum um píningartólin hvenær sem er. Við böðulsstaurinn er svo hlekkjaður hinn þjáði Kristur sem þjáist vegna illverka mannfólksins sem vill ekki sjá eða heyra. Ófrelsið ríkir alls staðar, líka hjá illvikjunum því þeir eru verkfæri illskunnar.

„Sælir eru miskunnsamir, því þeim mun miskunnað verða.” Á hinum enda kirkjunnar má sjá andstæðu við ofsóknarmyndina, þar sem grunnstefið er miskunnsemin í athöfnum fólks. Hér er táknmynd af flóttafólki af ólíku þjóðerni og kynþætti, sem þarf af einhverjum ástæðum að tjalda til einnar nætur því það er hvergi velkomið. Á myndinni eru börn sem eiga að undirstrika að það eru þau sem þjást mest í ófriði og átökum þjóða. Á meðal fólksins má sjá móður Theresu, sem er raunverulegt og skýrt tákn mannúðar og miskunnsemi í samtímanum. Einnig er þar maður með merki rauða krossins á handleggnum, sem er tákn samhjálpar í átökum og neyð. Að baki því býr sú hugsjón að allir leggi sig fram um að hjálpa af mannúð, óhlutdrægni og hlutleysi, bindi þannig enda á þjáningar þeirra sem líða og þjást og kveiki þannig nýtt vonarljós. Í slíkri breytni trúar, vonar og kærleika er fólgið fyriheit eilífrar blessunar Guðs.

Ljósmyndir og texti: Bragi J. Ingibergsson (með hliðsjón af grein sr. Sigurðar H. Guðmundssonar „Freskumyndir í Víðistaðakirkju”)