Hádegistónleikar

Á föstudaginn kemur, 26. apríl, verða síðustu hádegistónleikarnir í röð vetrarins. Þá mun Halldór Víkingsson píanóleikari leika rómantísk verk eftir Johannes Brahms, Franz Schubert, Anatoly Konstantinovich Liadov og Sergei Rachmaninoff.

Tónleikarnir hefjast kl. 12:00 og er aðgangseyrir kr. 1.500,-. Boðið er upp á súpu og brauð í safnaðarheimilinu efti tónleikana.

Halldór Víkingsson er píanókennari við Tónlistarskóla Seltjarnarness.  Halldór er fæddur 1957 í Stykkishólmi, sonur Víkings Jóhannssonar organista og skólastjóra tónlistarskólans, og fékk þar fyrstu tilsögn í hljóðfæraleik. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum að Laugarvatni 1977, þar sem hann stundaði einnig píanónám hjá Lofti S. Loftssyni og Einari Markússyni í Tónlistarskóla Árnessýslu.

Halldór  var nemandi Halldórs Haraldssonar í píanóleik í Tónlistarskólanum í Reykjavík frá haustinu 1977, og útskrifaðist hann úr píanókennaradeild Tónlistarskólans í Reykjavík vorið 1982, en lagði einnig stund á þýsku, íslensku og almenn málvísindi við Háskóla Íslands. Hann sækir enn píanótíma til nafna síns. Hann hefur komið fram við ýmis tækifæri, bæði á píanó og túbu, sem var hans annað hljóðfæri í tónlistarskólanum. Hefur hann m.a. haldið píanóeinleikstónleika á kirkjulistahátíð Seltjarnarneskirkju, á norðurljósahátíðinni í Stykkishólmi, og á vetrardögum í Víðistaðakirkju.

Halldór hefur verið tíður gestur í Víðistaðakirkju sem upptökumaður, allt frá því kirkjan var tekin í notkun og ekki að fullu frágengin, enda segja gárungarnir að Óskar og Halldór séu elstu starfsmenn kirkjunnar.

 

Comments are closed.