Kirkjan er lifandi samfélag og tekur því stöðugum breytingum. Margskonar nýbreytni og endurskipulagning setur mark sitt á starf hennar. Sóknum landsins hefur til dæmis verið skipt upp í samstarfssvæði og eru Hafnarfjörður og Garðabær eitt slíkt svæði.
Nú er sumar gengið í garð og margir vilja njóta útvistar og tilbreytingar í lífinu. Þessi breyting á lífsháttunum hefur einnig áhrif á kirkjustarfið. Til að efla samstarf og kynni hafa prestarnir á svæðinu reglulega með sér fundi. Sýnilegur árangur af þessum fundum kemur fram í “Hjólreiðamessu” næsta sunnudag þann 16. júní.
Hjólreiðamessan er gott tækifæri fyrir fjölskyldur að sameinast um nýbreytni. Allir sæmilega stálpaðir sem hafa aðgang að reiðhjóli geta tekið þátt í dagskránni um leið og notið er útivistar og hollrar hreyfingar. Gefst þá um leið tækifæri til að skoða aðstæður í öðrum söfnuðum, en mikill menningarauki er að hinu fjölbreytta starfi safnaðanna.
Hjólreiðamessan hefst kl. 10.00 á tveimur stöðum, Ástjarnarkirkju í Hafnarfirði og Vídalínskirkju í Garðabæ. Garðbæingar mega líka hjóla suður á Velli og leggja upp frá Ástjarnarkirkju, en hóparnir hittast í Hafnarfjarðarkirkju og halda áfram þaðan.
Að þessu sinni er meiri áhersla lögð á hreyfingu og útivist heldur en helgihaldið og verður því staldrað stutt við í kirkjunum. Einn messuliður og sálmur eru á dagskrá í hverri kirkju eins og sjá má í auglýsingunni hér í Fjarðarpóstinum.
Einnig er velkomið að koma inn í hjólahópinn þar sem hentar, en allir eru hvattir til að nota hjálma og fara með fullri varúð í umferðinni. Ætti þetta að verða góður undirbúningur fyrir hátíðahöld þjóðhátíðardagsins.
Sjá dagskrá með tímasetningum hér fyrir neðan: