Víðistaðakirkja-pano

Biblíuleg íhugun

Biblíuleg íhugun er vikuleg kyrrðar- og íhugunarstund með bæn sem fram fer í kirkjunni á þriðjudögum kl. 17:30. Umsjón hafa Bergþóra Baldursdóttir og María Guðmundsdóttir.

Biblíuleg íhugun (Lectio Divina) byggir á hefð miðaldraklaustranna en þó með nútímalegri nálgun. Eftir þægilega slökunartónlist í upphafi stundanna og bæn er lesinn hluti úr guðspjalli næstkomandi sunnudags. Textinn er lesinn í þrígang; sumir kjósa að hlýða á með lokuð augun en öðrum þykir gott að hafa Biblíuna fyrir framan sig.

Við fyrsta lesturinn er horft til heildarmyndarinnar – samhengi guðspjallsins, um leið og innri skilningarvit eru virkjuð. Þegar lesið er í annað sinn er athyglinni beint að því sem sagt er og áheyrendur geta upplifað eins og talað sé beint til þeirra. Við þriðja lesturinn er dvalið við ákveðin orð eða atvik sem sérstaklega grípa og leita á hugann.

Að lestri loknum er gjarnan setið í u.þ.b. 10 mínútur, þar sem hver og einn þátttakandi á sína persónulegu upplifun í algerri kyrrð. Stundinni lýkur svo með bæn og blessunarorðum. Þessar stundir Biblíulegrar íhugunar eru endurnærandi fyrir sál og anda og gefa aukinn kraft út í daglegt líf.

Verið velkomin!