Kirkjulistavika Kjalarnessprófastsdæmis verður dagana 29. október – 5. nóvember – og er samstarfsverkefni allra safnaða prófastsdæmisins. Þar er boðið upp á fjölbreytta dagskrá eins og sjá má á meðfylgjandi auglýsingu. Viðburðir hér í Víðistaðakirkju eru jafnframt hluti af Vetrardögum í Víðistaðakirkju sem standa yfir þessa sömu viku.
Kyrrðarbænanámskeið
Kyrrðarbænasamtökin á Íslandi ásamt Víðistaðakirkju og Hafnarfjarðarkirkju bjóða upp á námskeið um Kyrrðarbæn í Víðistaðakirkju.
Námskeiðið fer fram í tveimur hlutum sá fyrri er fimmtudaginn 2. nóvember kl. 17.30-19.30 og sá seinni viku seinna fimmtudaginn 9. nóvember kl. 17.30-19.30.
Kyrrðarbæn er íhugunaraðferð úr kristinni hefð sem hefur verið stunduð í einhverri mynd alveg frá frumkristni. Á námskeiðinu verður fjallað um þessa íhugunaraðferð, hún kennd og iðkuð.
Kyrrðarbæn er afar einföld iðkun sem fer fram í þögn og gengur út á að hvíla í nærveru Guðs og samþykkja verk heilags anda innra með okkur. Þótt aðferðin sé einföld hefur hún umbreytandi áhrif á iðkandann með auknum andlegum þroska sem leiðir m.a. til aukinnar sjálfsþekkingar og dýpra sambands við Guð og menn.
Kennarar námskeiðsins eru Bergþóra Baldursdóttir og Bylgja Dís Gunnarsdóttir en þær eru báðar með kennsluréttindi í Kyrrðarbæn og hafa ástundað hana um árabil. Bergþóra og Bylgja Dís sjá um Kyrrðarbænastundir sem fara fram í Víðistaðakirkju á fimmtudögum kl. 17.30.
Verð: 4.000 kr. Innifalið er léttur kvöldverður bæði kvöldin og námsgögn.
Skráning: https://kyrrdarbaen.skramur.is/input.php?id=18 Nokkrum dögum fyrir námskeiðið fá þátttakendur kröfu í heimabankann sinn fyrir námskeiðsgjaldinu.
Nánari upplýsingar: bylgja@hafnarfjardarkirkja.is.
Kyrrðarstundir
Kyrrðar- og fyrirbænastundir verða á miðvikudögum kl. 12:10 í október og nóvember – og verður fyrsta stundin miðvikudaginn 4. október. þetta eru notalegar og nærandi stundir með ljúfri tónlist, lofgjörð og fyrirbænum. Boðið er upp á súpu og brauð í safnaðarheimilinu að kyrrðarstund lokinni. Hægt er að koma fyrirbænarefnum til sóknarprests srbragi@vidistadakirkja.is eða skrá þau hér.
Kyrrðarbæn
Kyrrðarbænastundir í Víðistaðakirkju hefjast að nýju fimmtudaginn 5. október kl. 17:30.
Í vetur verður boðið upp á fræðslu, tónlist, djúpslökun, málsverði og margt fleira uppbyggjandi, kyrrlátt og gott auk bænar og íhugunar.
Verið öll hjartanlega velkomin á þessar yndislegu stundir sem eru samstarfsverkefni Hafnarfjarðarkirkju og Víðistaðakirkju. Umsjón með stundunum hafa Bergþóra Baldursdóttir og Bylgja Dís Gunnarsdóttir. Nánari upplýsingar: bylgja@hafnarfjardarkirkja.is
Starf á haustmisseri
Hér fyrir neðan má sjá kynningu á helstu þáttum safnaðarstarfsins og yfirlit yfir helgihaldið á haustmisseri.
Umsjón æskulýðsstarfs
Ísabella Leifsdóttir hefur verið ráðin til að sjá um æskulýðsstarf kirkjunnar. Ísabella er menntuð söngkona og hef einnig reynslu af störfum innan kirkjunnar, m.a. umsjón sunnudagaskóla og kórastarfi. Hún kemur til með að sjá um sunnudagaskólann og annað barnastarf og verður m.a. ásamt Sveini Arnari kórstjóra með barnakóra kirkjunnar. Er hún boðin velkomin til starfa.
Nýr kirkjuvörður
Nýr kirkjuvörður Helgi Hjálmtýsson að nafni tók til starfa við Víðistaðakirkju þann 1. september síðastliðinn. Helgi er fæddur og uppalinn á Bíldudal í Arnarfirði. Hann er menntaður í bókmenntafræði, verkefnastjórnun og tónlist – og hefur starfað m.a. sem markaðs- og kynningarfulltrúi Bolungarvíkurkaupstaðar, vefsjóri Vesturbyggðar og í Fjármálaráðuneytinu, ýmis kirkjuleg störf og á tónlistarsviðinu. Helgi er giftur sr. Ástu Ingibjörgu Pétursdóttur og eiga þau tvær uppkomnar dætur.
Um leið og Helgi er boðinn velkominn til starfa er Benedikt Sigurðssyni fráfarandi kirkjuverði þökkuð vel unnin störf og óskað alls hins besta í nýjum verkefnum.
Starf kirkjuvarðar
Starf kirkjuvarðar er laust til umsóknar. Umsóknarfrestur er til 26. júní nk. nánari upplýsingar um starfsvið og hæfniskröfur má sjá hér á meðfylgjandi auglýsingu.
Sumarkirkjan
Eins og undanfarin ár verða sumarmessur í Garðakirkju á Álftanesi. Um er að ræða samstarfsverkefni Þjóðkirkjusafnaðanna í Hafnarfirði, Garðabæ og Álftanesi og Fríkirkjunnar í Hafnarfirði sem nefnist Sumarkirkjan. Það felur í sér að kirkjurnar sameinast um guðsþjónustuhald í júní, júlí og ágúst í Garðakirkju. Sumarmessur í Garðakirkju verða því á hverjum sunnudegi í sumar kl. 11:00. Eftir messu hverju sinni verður boðið upp á messukaffi og ýmiss konar viðburði í hlöðunni á Króki. Sjá nánar á Fb-síðu Sumarkirkjunnar.
Aðalsafnaðarfundur
Aðalsafnaðarfundur verður haldinn sunnudaginn 14. maí kl. 12:00 – strax að lokinni guðsjónustu kl. 11:00. Á dagskrá fundarins verða venjuleg aðalfundarstörf. Veitingar í safnaðarheimilinu. Sóknarfólk er hvatt til að mæta. Verið velkomin!