Framkv.2021.02

Viðgerðir á Víðistaðakirkju

Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá neinum sem átt hefur leið hjá Víðistaðakirkju í sumar að þar hafa verktakar verið að störfum. Löngu tímabær viðgerð og enduruppbygging á þakkanti kirkjunnar fer fram auk viðhaldsvinnu á læstri málmklæðningu á þaki og endurnýjunar á áfellum. Einnig verður skipt um glugga og hurðir sunnan megin í kirkjubyggingunni. Það er Rafblikk ehf í Hafnarfirði sem annast framkvæmd verksins.

Að loknu þessu verki standa vonir til að loftun þaks stórbatni og minni hætta verði á leka í kirkjunni, sem því miður nokkuð hefur borið á í gegnum tíðina. Verkið er unnið undir  umsjá og eftirliti verkfræðistofunnar VSB.

Áætluð verklok eru 1.september og markar þessi framkvæmd fyrsta áfanga á viðamiklu viðhaldsverkefni sem söfnuðurinn stendur frammi fyrir. Á næsta ári er ráðgert að halda áfram og endurnýja loftaplötur inni í kirkjunni, en þær eru á mörgum stöðum ónýtar vegna rakamyndunar. Einnig þarf að skipta út og endurnýja rakasperru inni í kirkjunni.

Heildarkostnaður við þessar framkvæmdir er áætlaður um 70 milljónir og verkefnið er því risavaxið fyrir söfnuðinn. Styrkur til framkvæmdarinnar hefur fengist úr Jöfnunarsjóði sókna á þessu ári, en það er mikið verk fram undan við að fjármagna framhald verksins. Fyrir utan að hýsa eitt merkasta kirkjulistaverk á Íslandi, freskumyndir Baltasar Samper, þá er Víðistaðakirkja einnig samveru og samkomustaður sóknarbarna og allra annarra Hafnfirðinga sem þangað leita. Fjöldi athafna, s.s. funda, tónleika og skólaútskrifta og fleiri viðburða á vegum Hafnarfjarðarbæjar og hinna ýmsu samtaka og félaga, fara fram í Víðistaðakirkju á ári hverju og því er mikilvægt að vel takist til í þessu mikla verkefni.

Arnar - Mynd í Saurbæ ágúst 2021.b

Nýr organisti

Ráðinn hefur verið nýr organisti við Víðistaðakirkju, en Helga Þórdís Guðmundsdóttir sem starfað hefur sem organisti sl. 9 ár lét af störfum nú í sumar er hún tók við stöðu skólastjóra Listaskólans í Mosfellsbæ. Nýi organistinn heitir Sveinn Arnar Sæmundsson, en hann hefur verið organisti og kórstjóri við Akraneskirkju í 20 ár. Sveinn Arnar lauk kantorsprófi frá Tónskóla Þjóðkirkjunnar árið 2006 og einnig einleikaraprófi í orgelleik árið 2010. Hann hefur hlotið 8. stig í söng og lauk fyrir 2 árum diplómanámi í viðburðastjórnun frá Háskólanum á Hólum. Sveinn Arnar er Skagfirðingur að uppruna og hefur á starfsferli sínum verið organisti í Skagafirði, tónlistarkennari og stjórnað ýmsum kórum m.a. Kammerkór Akraness, Skagfirska Kammerkórnum og Karlakórnum Heimi svo einhverjir séu nefndir. Þá var hann einn af stofnendurm Kalman-listafélagsins á Akranesi árið 2013 sem staðið hefur fyrir fjölda viðburða þar í bæ. Sveinn Arnar var valinn Bæjarlistamaður á Akranesi árið 2012. Er Sveinn Arnar boðinn velkominn til starfa í Víðistaðakirkju.

Mynd.01

Blómasala Systrafélagsins

Hin árlega blómasala Systrafélags kirkjunnar hófst í dag 26. maí kl. 11:00. Við blómasöluna verður kirkjutorgið fullt af lífi og litum og nú við opnunina bættust harmónikutónar við er Benedikt kirkjuvörður lék á nikkuna. Blómasalan er helsta fjáröflun Systrafélagsins og stendur nú yfir til 1. júní nk. eða meðan birgðir endast.

Benni.02b

Nýr kirkjuvörður

Ný kirkjuvörður, Benedikt Sigurðsson, hefur hafið störf í Víðistaðakirkju. Benedikt mun jafnframt verða með í að leiða og byggja upp æskulýðsstarfið hjá okkur á komandi hausti. Benedikt er á 1.ári í guðfræði og mun stunda það nám samhliða starfi í Víðistaðakirkju. Benedikt hefur varið mest af sínum starfsferli fyrir vestan, í Bolungarvík og á Ísafirði en fluttist nýverið suður heiðar. Starfsferillinn spannar m.a. kennslu við Grunnskóla Ísafjarðar, íþróttaþjálfun, tónlistarflutning og starf sem forstöðumaður Félagsheimilis Bolungarvíkur – auk þess að eiga og reka gisti og veitingahús þar vestra. Benedikt hefur unnið mikið að tónlist með t.a.m Heru Björk, Bjartmari Guðlaugs, KK, Pálma Sigurhjartar, hljómsveitinni Albatross, Jógvani Hansen, Ara Ólafssyni og fl og fl. og gaf svo út hljómplötu árið 2020. Veturinn 2020-2021 vann Benedikt í Vídalínskirkju við afleysingar m.a. við fermingarfræðslu og sunnudagaskóla, samhliða störfum sem tónlistarmaður á bráðageðdeild Landspítala. Sóknarnefnd Víðistaðakirkju og samstarfsfólk býður Benedikt hjartanlega velkominn til starfa í Víðistaðakirkju.

j0436065

5 fermingarathafnir

Á skírdag þann 1. apríl sl. voru 13 börn fermd í 5 athöfnum hér í Víðistaðakirkju. Fyrsta athöfnin var kl. 10:00 og svo á klukkustundar fresti, sú síðasta kl. 14:00. Hluti þessara barna höfðu átt að fermast á pálamasunnudag, en þeim athöfnum var frestað þegar allt unglingastig Víðistaðaskóla var sett í sóttkví og þar með fermingarbörnin. Var þá bætt við fleiri athöfnum á skírdag. Sóknarprestur fermdi og Helga Þórdís organisti sá um tónlistina, spilaði á flygil og orgel og söng. Kirkjugestir, sem voru innan tilskilinna fjöldatakmarka, voru skráðir fyrirfram og raðað á númeraða bekki í samræmi við sóttvarnareglur. Var mikil ánægja meðal fermingarbarna og foreldra með fermingarathafnirnar þó þær væru með einfalaldara sniði en venjan er – og einnig að ekki þyrfti að fresta þeim um óákveðinn tíma.