Víðistaðakirkja tekur nú þátt í samstarfsverkefninu “Get together” með Bókasafni Hafnarfjarðar, Hafnarborg, Hafnarfjarðarkirkju og Ástjarnarkirkju – sem felur í sér að skapa aðstöðu fyrir flóttafólk til að koma saman og bjóða jafnframt upp á dagskrá á fyrrnefndum stöðum. Hér í Víðistaðakirkju munum við bjóða upp á opið hús á þriðjudögum kl. 13:00 – 15:00 og sníðum dagskrána sérstaklega að eldri börnum og unglingum. Allt flóttafólk, hvaðan sem það kemur, er að sjálfsögðu velkomið.
Aðalsafnaðarfundur
Aðalsafnaðarfundur verður haldinn sunnudaginn 20. mars nk. kl. 15:00. Á dagskrá fundarins verða venjuleg aðalfundarstörf. Sóknarfólk er hvatt til að mæta. Kaffiveitingar. Að loknum fundi verður svo mottumessa í kirkjunni kl. 17:00. Verið velkomin!
Messað 6. febrúar
Ekkert opið helgihald hefur verið í kirkjunni í janúar vegna samkomutakmarkana, en vonandi fer að hylla undir betri tíma sem getur gefið svigrúm fyrir opnun helgihalds að nýju. Í ljósi fregna um mögulega slökun á takmörkunum í næstu viku þá er nú stefnt að því að hafa guðsþjónustu sunnudaginn 6. febrúar á hefðbundnum tíma kl. 11:00
Helgihald fellur niður um jólin
Vegna hertra samkomutakmarkana sem taka gildi 22. desember og erfiðrar stöðu kórónuveirufaraldurs þá hefur verið ákveðið að fella niður helgihald um jól og áramót. Jólahelgistund verður þó send út á FB-síðu Víðistaðakirkju.
Aðventuhátíð fellur niður
Aðventuhátíðin sem vera átti 1. sunnudag í aðventu 28. nóv. nk. fellur niður vegna fjöldatakmarkana.
Vetrardagar í Víðistaðakirkju
Dagskrá Vetrardaga í Víðistaðakirkju hefst á sunnudaginn kemur, þann 24. okt. kl. 11:00 með tónlistarguðsþjónustu (sjá viðburði). Í vikunni næstu verður svo boðið upp á ýmsa afar áhugaverða viðburði og má þar nefna kaffihúsa- og menningarkvöld kirkjukórsins á þriðjudagskvöldið, leiksýningu Kómedíuleikhússins um Gísla á Uppsölum á fimmtudagskvöldið, tónlistardag barnanna þar sem Þorri og Þura koma í heimsókn á föstudaginn og ýmislegt fleira. Enginn aðgangseyrir er á viðburðina. Sjá nánar í dagskrá Vetrardaga.
Kyrrðarstundir
Kyrrðarstundir hefjast á ný miðvikudaginn 6. október og verða á hverjum miðvikudegi fram að aðventu kl. 12:10. Boðið verður upp á súpu og brauð á eftir í safnaðarheimilinu. Sjá nánar hér.
Barnakór Víðistaðakirkju
Starf Barnakórs Víðistaðakirkju hefst á morgun fimmtudaginn 16. september kl. 13:30 – og verða æfingar kórsins á þessum tíma alla fimmtudaga í vetur. Stjórnandi er nýr organisti kirkjunnar Sveinn Arnar Sæmundsson. Sjá nánar upplýsingar og skráningarform hér.
Barnastarfið hefst í dag
Barnastarfið hefst í dag 15. september. Starf fyrir 6-9 ára börn er og verður í vetur á miðvikudögum kl. 13:30 og fyrir 10-12 ára börn á miðvikudögum kl. 14:30. Umsjón með starfinu hafa Benedikt Sigurðsson kirkjuvörður og guðfræðinemi og Helga Bragadóttir guðfræðingur.
Viðgerðir á Víðistaðakirkju
Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá neinum sem átt hefur leið hjá Víðistaðakirkju í sumar að þar hafa verktakar verið að störfum. Löngu tímabær viðgerð og enduruppbygging á þakkanti kirkjunnar fer fram auk viðhaldsvinnu á læstri málmklæðningu á þaki og endurnýjunar á áfellum. Einnig verður skipt um glugga og hurðir sunnan megin í kirkjubyggingunni. Það er Rafblikk ehf í Hafnarfirði sem annast framkvæmd verksins.
Að loknu þessu verki standa vonir til að loftun þaks stórbatni og minni hætta verði á leka í kirkjunni, sem því miður nokkuð hefur borið á í gegnum tíðina. Verkið er unnið undir umsjá og eftirliti verkfræðistofunnar VSB.
Áætluð verklok eru 1.september og markar þessi framkvæmd fyrsta áfanga á viðamiklu viðhaldsverkefni sem söfnuðurinn stendur frammi fyrir. Á næsta ári er ráðgert að halda áfram og endurnýja loftaplötur inni í kirkjunni, en þær eru á mörgum stöðum ónýtar vegna rakamyndunar. Einnig þarf að skipta út og endurnýja rakasperru inni í kirkjunni.
Heildarkostnaður við þessar framkvæmdir er áætlaður um 70 milljónir og verkefnið er því risavaxið fyrir söfnuðinn. Styrkur til framkvæmdarinnar hefur fengist úr Jöfnunarsjóði sókna á þessu ári, en það er mikið verk fram undan við að fjármagna framhald verksins. Fyrir utan að hýsa eitt merkasta kirkjulistaverk á Íslandi, freskumyndir Baltasar Samper, þá er Víðistaðakirkja einnig samveru og samkomustaður sóknarbarna og allra annarra Hafnfirðinga sem þangað leita. Fjöldi athafna, s.s. funda, tónleika og skólaútskrifta og fleiri viðburða á vegum Hafnarfjarðarbæjar og hinna ýmsu samtaka og félaga, fara fram í Víðistaðakirkju á ári hverju og því er mikilvægt að vel takist til í þessu mikla verkefni.