TEYMI  - PLAGÖT TEMPLATES

Opið hús fyrir flóttafólk

Víðistaðakirkja tekur nú þátt í samstarfsverkefninu “Get together” með Bókasafni Hafnarfjarðar, Hafnarborg, Hafnarfjarðarkirkju og Ástjarnarkirkju – sem felur í sér að skapa aðstöðu fyrir flóttafólk til að koma saman og bjóða jafnframt upp á dagskrá á fyrrnefndum stöðum. Hér í Víðistaðakirkju munum við bjóða upp á opið hús á þriðjudögum kl. 13:00 – 15:00 og sníðum dagskrána sérstaklega að eldri börnum og unglingum. Allt flóttafólk, hvaðan sem það kemur, er að sjálfsögðu velkomið.

Vetur.himinn

Messað 6. febrúar

Ekkert opið helgihald hefur verið í kirkjunni í janúar vegna samkomutakmarkana, en vonandi fer að hylla undir betri tíma sem getur gefið svigrúm fyrir opnun helgihalds að nýju. Í ljósi fregna um mögulega slökun á takmörkunum í næstu viku þá er nú stefnt að því að hafa guðsþjónustu sunnudaginn 6. febrúar á hefðbundnum tíma kl. 11:00

Víðistaðakirkja.2

Vetrardagar í Víðistaðakirkju

Dagskrá Vetrardaga í Víðistaðakirkju hefst á sunnudaginn kemur, þann 24. okt. kl. 11:00 með tónlistarguðsþjónustu (sjá viðburði). Í vikunni næstu verður svo boðið upp á ýmsa afar áhugaverða viðburði og má þar nefna kaffihúsa- og menningarkvöld kirkjukórsins á þriðjudagskvöldið, leiksýningu Kómedíuleikhússins um Gísla á Uppsölum á fimmtudagskvöldið, tónlistardag barnanna þar sem Þorri og Þura koma í heimsókn á föstudaginn og ýmislegt fleira. Enginn aðgangseyrir er á viðburðina. Sjá nánar í dagskrá Vetrardaga.

Framkv.2021.02

Viðgerðir á Víðistaðakirkju

Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá neinum sem átt hefur leið hjá Víðistaðakirkju í sumar að þar hafa verktakar verið að störfum. Löngu tímabær viðgerð og enduruppbygging á þakkanti kirkjunnar fer fram auk viðhaldsvinnu á læstri málmklæðningu á þaki og endurnýjunar á áfellum. Einnig verður skipt um glugga og hurðir sunnan megin í kirkjubyggingunni. Það er Rafblikk ehf í Hafnarfirði sem annast framkvæmd verksins.

Að loknu þessu verki standa vonir til að loftun þaks stórbatni og minni hætta verði á leka í kirkjunni, sem því miður nokkuð hefur borið á í gegnum tíðina. Verkið er unnið undir  umsjá og eftirliti verkfræðistofunnar VSB.

Áætluð verklok eru 1.september og markar þessi framkvæmd fyrsta áfanga á viðamiklu viðhaldsverkefni sem söfnuðurinn stendur frammi fyrir. Á næsta ári er ráðgert að halda áfram og endurnýja loftaplötur inni í kirkjunni, en þær eru á mörgum stöðum ónýtar vegna rakamyndunar. Einnig þarf að skipta út og endurnýja rakasperru inni í kirkjunni.

Heildarkostnaður við þessar framkvæmdir er áætlaður um 70 milljónir og verkefnið er því risavaxið fyrir söfnuðinn. Styrkur til framkvæmdarinnar hefur fengist úr Jöfnunarsjóði sókna á þessu ári, en það er mikið verk fram undan við að fjármagna framhald verksins. Fyrir utan að hýsa eitt merkasta kirkjulistaverk á Íslandi, freskumyndir Baltasar Samper, þá er Víðistaðakirkja einnig samveru og samkomustaður sóknarbarna og allra annarra Hafnfirðinga sem þangað leita. Fjöldi athafna, s.s. funda, tónleika og skólaútskrifta og fleiri viðburða á vegum Hafnarfjarðarbæjar og hinna ýmsu samtaka og félaga, fara fram í Víðistaðakirkju á ári hverju og því er mikilvægt að vel takist til í þessu mikla verkefni.