Untitled

Kyrrðarstundir

Kyrrðarstundir hefjast aftur miðvikudaginn 5. febrúar og verða á hverjum miðvikudegi í febrúar og mars kl. 12:10. Þetta eru rólegar stundir með ljúfri tónlist. Þá eru fluttar fyrirbænir og er hægt að koma fyrirbænaefnum til sóknarprests eða kirkjuvarðar og einnig er hægt að skrá þau hér. Boðið er upp á súpu og brauð og gott samfélag í safnaðarsalnum á eftir. Verið velkomin!

Vetrardagar

Hátíðin „Vetrardagar í Víðistaðakirkju“ var fyrst haldin fyrir 10 árum síðan í október árið 2009. Í ár verður hátíðin haldin dagana 3. – 10. nóvember nk. og hefst með guðsþjónustu á allra heilagra messu og kirkjukaffi á eftir í safnaðarsal. Þá verður jafnframt opnuð myndlistarsýning eftir listakonuna Ragnheiði Líneyju Pálsdóttur. Þriðjudagskvöldið 5. nóvember verða tónleikar Flensborgarkórsins og Hrafnhildar Blomsterberg stjórnanda kl. 20:00. Boðið verður upp á spennandi fyrirlestur fimmtudaginn 7. nóvember kl. 20:00; þá mun Þorsteinn V. Einarsson koma í heimsókn og fræða feður og aðra áhugasama um „Leikreglur karlmennskunnar“. Föstudaginn 8. nóvember verður tónlistardagur barnanna og er þetta í tíunda skiptið sem hann er haldinn; að þessu sinni verður börnum í 1. – 4. bekk boðið á tónlistardagskrá á vegum tvíeykisins Dúó Stemma þar sem þemað er vibnáttan. Vetrardögum lýkur svo með fjölskylduhátíð og vöfflukaffi þann 10. nóvember.

Fjöldi á Fjölskylduhátíð

Sameiginleg fjölskylduhátíð þjóðkirkjusafnaðanna í Hafnarfirði og Garðabæ var haldin í Víðistaðakirkju og íþróttahúsi Víðistaðaskóla sunnudaginn 6. október sl. Hófst hátíðin með fjölbreyttri dagskrá í kirkjunni; þar kom m.a. fram rúmlega 100 barna kór safnaðanna, hljómsveit og leikarar sem fluttu stuttan leikþátt. Kórinn frumflutti tvo nýja sálma eftir Helgu Þórdísi organista og sr. Braga sóknarprest kirkjunnar. Sr. Jóna Hrönn í Vídalínskirkju stýrði stundinni. Að henni lokinni færðu kirkjugestir sig í íþróttahúsið þar sem boðið var upp á grillaðar pylsur, hoppukastala, andlitsmálun og fleira. Um 550 manns sóttu hátíðina.

Starfsmannabreytingar

Nýverið lét Karl Kristensen af störfum fyrir aldurs sakir sem kirkjuvörður í Víðistaðakirkju og við tók Margrét Lilja Vilmundardóttir. Margrét Lilja segist full tilhlökkunar til að takast á við nýja starfið en hún er ný flutt með fjölskyldu sína til Hafnarfjarðar eftir sex ára búsetu á Súðavík. Margrét Lilja á að baki fjölþætta starfsreynslu, m.a. í kirkju- og félagsstarfi sem hún telur að muni nýtast vel í kirkjuvarðarstarfinu. Hún hefur lokið diplóma námi í nútímadansi frá Listadansskóla Íslands, BA prófi frá íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands og BA prófi í guðfræði frá sama skóla. Samhliða starfi sínu í Víðistaðakirkju leggur Margrét Lilja stund á magister nám í guðfræði.

Á síðasta aðalsafnaðarfundi Víðistaðasóknar gaf Gunnar Hólmsteinsson ekki kost á sér til áframhaldandi setu í sóknarnefnd, en þar hefur hann starfað frá stofnun sóknarinnar, eða í 42 ár. Gunnar hefur verið gjaldkeri sóknarinnar allan þennan tíma – sem sennilega er einsdæmi í sögu kirkjusókna á höfuðborgarsvæðinu. Nýr gjaldkeri sóknarinnar er Ragnar Z. Guðjónsson. Sóknarnefnd Víðistaðakirkju bíður þau Margréti Lilju og Ragnar hjartanlega velkomin til starfa.

Hittu forsetann

Barnastarfið endaði með hjólreiðaferð barnanna og leiðtoganna Maríu og Bryndísar síðastliðinn miðvikudag til Bessastaða. Eftir að hafa skoðað kirkjuna þá settust krakkarnir á kirkjutröppurnar til að borða nestið sitt. Renndi þá ekki í hlað Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og tók börnin tali eins og hans var von og vísa. Fyrir þeim var það hápunktur vel heppnaðrar ferðar eins og vel má sjá á myndunum.