Starf Barnakórs Víðistaðakirkju hefst á morgun fimmtudaginn 16. september kl. 13:30 – og verða æfingar kórsins á þessum tíma alla fimmtudaga í vetur. Stjórnandi er nýr organisti kirkjunnar Sveinn Arnar Sæmundsson. Sjá nánar upplýsingar og skráningarform hér.
Barnastarfið hefst í dag
Barnastarfið hefst í dag 15. september. Starf fyrir 6-9 ára börn er og verður í vetur á miðvikudögum kl. 13:30 og fyrir 10-12 ára börn á miðvikudögum kl. 14:30. Umsjón með starfinu hafa Benedikt Sigurðsson kirkjuvörður og guðfræðinemi og Helga Bragadóttir guðfræðingur.
Guðsþjónusta
Guðsþjónusta sunnudaginn 19. september kl. 11:00. Kór Víðistaðasóknar syngur undir stjórn Sveins Arnars Sæmundssonar og sr. Stefán Már Gunnlaugsson héraðsprestur þjónar með aðstoð messuþjóna kirkjunnar. Kaffihressing í safnaðarheimilinu að guðsþjónustu lokinni. Verið velkomin!
Fjölskylduhátíð
Fjölskylduhátíð sunnudaginn 12. september í umsjá sr. Braga, Sveins Arnars nýs organista kirkjunnar og Benna Sig. kirkjuvarðar. Sérstakur gestur er Ari Ólafsson söngvari. Boðið verður upp á pylsur og tilheyrandi eftir stundina. Verið velkomin!
Kyrrðar- og samverustund
Í tilefni af alþjóðlegum forvarnardegi sjálfsvíga verður haldin kyrrðar- og samverustund í Víðistaðakirkju fimmtudaginn 9. september kl. 20:00.
Alþjóðlegur forvarnardagur sjálfsvíga er 10. september. Tilgangur dagsins er að stuðla að forvörnum sjálfsvíga og minnast þeirra sem fallið hafa fyrir eigin hendi. Margir þjást vegna sjálfsvíga ástvina. Stundin er ætluð til að mæta þeim einstaklingum, styðja, styrkja og minnast. Kveikt verður á kertum í minningu þeirra sem látnir eru. Hér er tækifæri til að koma saman, hlýða á uppörvandi orð, hugleiðingu aðstandenda og leyfa tónlistinni að hreyfa við okkur.
Sr. Bragi J. Ingibergsson leiðir stundina, Hafdís Huld Þórólfsdóttir flytur hugleiðingu og um tónlistarflutning sjá þau Ásta Marý Stefánsdóttir, Benedikt Sigurðsson og Sveinn Arnar Sæmundsson.
Sunnudagaskóli kl. 10:00
Nú hefst sunnudagaskólinn að nýju og verður í kirkjunni á hverjum sunnudegi í vetur kl. 10:00. Börnin fá fjársjóðskistu að gjöf og safna í hana myndum sem þau fá við mætingu í sunnudagaskólann. Fyrsti sunnudagaskólinn í vetur verður næsta sunnudag 5. september kl. 10:00 í umsjá Benedikts Sigurðssonar. Verið velkomin!
Viðgerðir á Víðistaðakirkju
Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá neinum sem átt hefur leið hjá Víðistaðakirkju í sumar að þar hafa verktakar verið að störfum. Löngu tímabær viðgerð og enduruppbygging á þakkanti kirkjunnar fer fram auk viðhaldsvinnu á læstri málmklæðningu á þaki og endurnýjunar á áfellum. Einnig verður skipt um glugga og hurðir sunnan megin í kirkjubyggingunni. Það er Rafblikk ehf í Hafnarfirði sem annast framkvæmd verksins.
Að loknu þessu verki standa vonir til að loftun þaks stórbatni og minni hætta verði á leka í kirkjunni, sem því miður nokkuð hefur borið á í gegnum tíðina. Verkið er unnið undir umsjá og eftirliti verkfræðistofunnar VSB.
Áætluð verklok eru 1.september og markar þessi framkvæmd fyrsta áfanga á viðamiklu viðhaldsverkefni sem söfnuðurinn stendur frammi fyrir. Á næsta ári er ráðgert að halda áfram og endurnýja loftaplötur inni í kirkjunni, en þær eru á mörgum stöðum ónýtar vegna rakamyndunar. Einnig þarf að skipta út og endurnýja rakasperru inni í kirkjunni.
Heildarkostnaður við þessar framkvæmdir er áætlaður um 70 milljónir og verkefnið er því risavaxið fyrir söfnuðinn. Styrkur til framkvæmdarinnar hefur fengist úr Jöfnunarsjóði sókna á þessu ári, en það er mikið verk fram undan við að fjármagna framhald verksins. Fyrir utan að hýsa eitt merkasta kirkjulistaverk á Íslandi, freskumyndir Baltasar Samper, þá er Víðistaðakirkja einnig samveru og samkomustaður sóknarbarna og allra annarra Hafnfirðinga sem þangað leita. Fjöldi athafna, s.s. funda, tónleika og skólaútskrifta og fleiri viðburða á vegum Hafnarfjarðarbæjar og hinna ýmsu samtaka og félaga, fara fram í Víðistaðakirkju á ári hverju og því er mikilvægt að vel takist til í þessu mikla verkefni.
Nýr organisti
Ráðinn hefur verið nýr organisti við Víðistaðakirkju, en Helga Þórdís Guðmundsdóttir sem starfað hefur sem organisti sl. 9 ár lét af störfum nú í sumar er hún tók við stöðu skólastjóra Listaskólans í Mosfellsbæ. Nýi organistinn heitir Sveinn Arnar Sæmundsson, en hann hefur verið organisti og kórstjóri við Akraneskirkju í 20 ár. Sveinn Arnar lauk kantorsprófi frá Tónskóla Þjóðkirkjunnar árið 2006 og einnig einleikaraprófi í orgelleik árið 2010. Hann hefur hlotið 8. stig í söng og lauk fyrir 2 árum diplómanámi í viðburðastjórnun frá Háskólanum á Hólum. Sveinn Arnar er Skagfirðingur að uppruna og hefur á starfsferli sínum verið organisti í Skagafirði, tónlistarkennari og stjórnað ýmsum kórum m.a. Kammerkór Akraness, Skagfirska Kammerkórnum og Karlakórnum Heimi svo einhverjir séu nefndir. Þá var hann einn af stofnendurm Kalman-listafélagsins á Akranesi árið 2013 sem staðið hefur fyrir fjölda viðburða þar í bæ. Sveinn Arnar var valinn Bæjarlistamaður á Akranesi árið 2012. Er Sveinn Arnar boðinn velkominn til starfa í Víðistaðakirkju.
Sumarmessa
Sumarmessa í Garðakirkju sunnudaginn 22. ágúst kl. 11:00. Sr. Bragi J. Ingibergsson þjónar og Jóhann Baldvinsson spilar undir almennan söng. Á eftir verður messukaffi í Króki þar sem Benedikt Sigurðsson kirkjuvörður í Víðistaðakirkju leikur á harmóniku. Verið velkomin!
Hjólreiðamessa
Hin árlega hjólreiðamessa verður sunnudaginn 20. júní. Hjólað verður frá kirkjunun samkvæmt áætlun sem sjá má á meðfylgjandi auglýsingu og endað í sumarmessu í Garðakirkju kl. 11:00. Veitingar í Kaffi Króki á eftir.