Biblíuleg íhugun

Biblíuleg íhugun er kyrrðar- og íhugunarstund sem var vikulaga í boði síðastliðinn vetur og mun hefjast aftur þann 1. október nk. Í Biblíulegri íhugun er íhugaður einn guðspjallstexti hverju sinni og þá gjarnan komandi sunnudags – og er framkvæmdin samkvæmt hinni fornu Biblíulestraraðferð Lectio Divina/Biblíuleg íhugun. Biblíuleg íhugun fer fram á hverjum þriðjudegi kl. 18:00. Umsjón stundanna er í höndum þeirra Bergþóru Baldursdóttur og Nínu Dóru Pétursdóttur sem báðar eru  messuþjónar í Víðistaðakirkju.

Barnakór Víðistaðakirkju

Æfingar hjá barnakórnum verða á miðvikudögum kl. 14.30 – 15.20. Börn frá 8 ára aldri (3. bekk) eru velkomin í kórinn. Skráningarblöð má finna hér  og er hægt að prenta það út og koma með kirkjuna eða senda það sem viðhengi á netfang kórstjóra, helga(hjá)viistadakirkja.is.

Allar nánari upplýsingar eru hjá kórstjóra, Helgu Þórdísi Guðmundsdóttur á netfangi eða í síma 8683110.

Tónlistarguðsþjónusta

Tónlistarguðsþjónusta verður á sunnudaginn kemur, þann 1. september kl. 11:00. Þá mun hljómsveitin Tilviljun leika létta og skemmtilega tónlist. Auk sóknarprests mun sr. Kjartan Jónsson sóknarprestur í Tjarnaprestakalli þjóna fyrir altari og prédika. Er sérstaklega vænst þátttöku fermingarbarna og fjölskyldna, en fermingarbörn úr báðum prestaköllum – þ.e. úr Víðistaðasókn, Ástjarnarsókn og Kálfatjarnarsókn – hafa sótt fermingarnámskeið hér í kirkjunni nú í vikunni. En allir eru að sjálfsögðu velkomnir!

Gjöf til íbúa sóknarinnar

Undanfarna daga hefur verið borin út kveðja frá Víðistaðakirkju til allra íbúa Víðistaðasóknar í tilefni 25 ára vígsluafmælis kirkjunnar þann 28. febrúar sl. Ákveðið var af þessu tilefni að ráðast í útgáfu á kynningarbæklingi um hin einstöku listaverk sem prýða kirkjuna – freskumyndirnar eftir Baltasar Samper.

Margir leggja leið sína í kirkjuna til að líta verkin augum og þar á meðal erlendir ferðamenn og listunnendur. Bæklingurinn nýi er bæði á íslensku og ensku – og var orðin nokkur þörf á að gefa út slíkan bækling þar sem eldri bæklingur var eingöngu á íslensku og þar að auki löngu uppurinn.

Er það von sóknarnefndar og starfsfólks kirkjunnar að þessari gjöf kirkjunnar til íbúa sóknarinnar verði vel tekið – og megi jafnframt verða hvatning til fólks að heimsækja kirkjuna, skoða freskumyndirnar og taka þátt í starfi kirkjunnar.