Ráðinn hefur verið nýr organisti við Víðistaðakirkju, en Helga Þórdís Guðmundsdóttir sem starfað hefur sem organisti sl. 9 ár lét af störfum nú í sumar er hún tók við stöðu skólastjóra Listaskólans í Mosfellsbæ. Nýi organistinn heitir Sveinn Arnar Sæmundsson, en hann hefur verið organisti og kórstjóri við Akraneskirkju í 20 ár. Sveinn Arnar lauk kantorsprófi frá Tónskóla Þjóðkirkjunnar árið 2006 og einnig einleikaraprófi í orgelleik árið 2010. Hann hefur hlotið 8. stig í söng og lauk fyrir 2 árum diplómanámi í viðburðastjórnun frá Háskólanum á Hólum. Sveinn Arnar er Skagfirðingur að uppruna og hefur á starfsferli sínum verið organisti í Skagafirði, tónlistarkennari og stjórnað ýmsum kórum m.a. Kammerkór Akraness, Skagfirska Kammerkórnum og Karlakórnum Heimi svo einhverjir séu nefndir. Þá var hann einn af stofnendurm Kalman-listafélagsins á Akranesi árið 2013 sem staðið hefur fyrir fjölda viðburða þar í bæ. Sveinn Arnar var valinn Bæjarlistamaður á Akranesi árið 2012. Er Sveinn Arnar boðinn velkominn til starfa í Víðistaðakirkju.
Sumarkirkjan
Sumarkirkjan er samstarfsverkefni kirknanna í Hafnarfirði og Garðabæ, en þær standa að sumarmessum í Garðakirkju á Álftanesi alla sunnudaga kl. 11:00 í júní, júlí og ágúst. Sjá meðfylgjandi dagskrá.
Blómasala Systrafélagsins
Hin árlega blómasala Systrafélags kirkjunnar hófst í dag 26. maí kl. 11:00. Við blómasöluna verður kirkjutorgið fullt af lífi og litum og nú við opnunina bættust harmónikutónar við er Benedikt kirkjuvörður lék á nikkuna. Blómasalan er helsta fjáröflun Systrafélagsins og stendur nú yfir til 1. júní nk. eða meðan birgðir endast.
Aðalsafnaðarfundur
Aðalsafnaðarfundur verður haldinn sunnudaginn 30. maí nk. kl. 18:00. Á dagskrá fundarins verða venjuleg aðalfundarstörf. Að loknum fundi verður svo dægurlagamessa í kirkjunni kl. 20:00. Verið velkomin!
Nýr kirkjuvörður
Ný kirkjuvörður, Benedikt Sigurðsson, hefur hafið störf í Víðistaðakirkju. Benedikt mun jafnframt verða með í að leiða og byggja upp æskulýðsstarfið hjá okkur á komandi hausti. Benedikt er á 1.ári í guðfræði og mun stunda það nám samhliða starfi í Víðistaðakirkju. Benedikt hefur varið mest af sínum starfsferli fyrir vestan, í Bolungarvík og á Ísafirði en fluttist nýverið suður heiðar. Starfsferillinn spannar m.a. kennslu við Grunnskóla Ísafjarðar, íþróttaþjálfun, tónlistarflutning og starf sem forstöðumaður Félagsheimilis Bolungarvíkur – auk þess að eiga og reka gisti og veitingahús þar vestra. Benedikt hefur unnið mikið að tónlist með t.a.m Heru Björk, Bjartmari Guðlaugs, KK, Pálma Sigurhjartar, hljómsveitinni Albatross, Jógvani Hansen, Ara Ólafssyni og fl og fl. og gaf svo út hljómplötu árið 2020. Veturinn 2020-2021 vann Benedikt í Vídalínskirkju við afleysingar m.a. við fermingarfræðslu og sunnudagaskóla, samhliða störfum sem tónlistarmaður á bráðageðdeild Landspítala. Sóknarnefnd Víðistaðakirkju og samstarfsfólk býður Benedikt hjartanlega velkominn til starfa í Víðistaðakirkju.
Skráning í fermingu 2022
Skráning í fermingu vorið 2022 er hafin hér á skráningarvef Víðistaðakirkju – og er þá um leið skráning í fermingarstarfið sem hefst næsta haust. Ef þörf er frekari upplýsinga er hægt að hafa samband við sóknarprestinn Braga srbragi@vidistadakirkja.is
5 fermingarathafnir
Á skírdag þann 1. apríl sl. voru 13 börn fermd í 5 athöfnum hér í Víðistaðakirkju. Fyrsta athöfnin var kl. 10:00 og svo á klukkustundar fresti, sú síðasta kl. 14:00. Hluti þessara barna höfðu átt að fermast á pálamasunnudag, en þeim athöfnum var frestað þegar allt unglingastig Víðistaðaskóla var sett í sóttkví og þar með fermingarbörnin. Var þá bætt við fleiri athöfnum á skírdag. Sóknarprestur fermdi og Helga Þórdís organisti sá um tónlistina, spilaði á flygil og orgel og söng. Kirkjugestir, sem voru innan tilskilinna fjöldatakmarka, voru skráðir fyrirfram og raðað á númeraða bekki í samræmi við sóttvarnareglur. Var mikil ánægja meðal fermingarbarna og foreldra með fermingarathafnirnar þó þær væru með einfalaldara sniði en venjan er – og einnig að ekki þyrfti að fresta þeim um óákveðinn tíma.
Helgihald fellur niður
Helgihald fellur niður í dimbilviku og um páska vegna hertra sóttvarnaráðstafana.
Helgihald hefst að nýju
Í kjölfar rýmkunar á sóttvarnareglum sem tóku gildi þann 8. feb. sl. er nú leyft að 150 manns séu viðstaddir allar kirkjulegar athafnir að teknu tilliti til 2m reglunnar sem verður áfram í fullu gildi. Þá þarf að nota grímur ef ekki er hægt að viðhafa 2m bilið. Helgihald hefst því aftur í kirkjunni eftir langt hlé nk. sunnudag þann 14. feb. kl. 11:00. þá hefjast ennfremur kyrrðarstundir á miðvikudögum kl. 12:10.
Ekkert helgihald um jólin
Ekkert opið helgihald verður í kirkjunni um hátíðirnar að þessu sinni vegna kórónuveirufaraldursins. Á aðfangadag verður helgistund streymt á Facebook-síðu kirkjunnar og hverður einnig aðgengileg hér á heimasíðu Víðistaðakirkju um öll jólin. Stundina verður að finna á hlekknum hér að neðan, en þar er líka að finna helgistundir sem streymt var á netið á aðventunni (Smellið á myndina):