Starfsmannabreytingar

Nýverið lét Karl Kristensen af störfum fyrir aldurs sakir sem kirkjuvörður í Víðistaðakirkju og við tók Margrét Lilja Vilmundardóttir. Margrét Lilja segist full tilhlökkunar til að takast á við nýja starfið en hún er ný flutt með fjölskyldu sína til Hafnarfjarðar eftir sex ára búsetu á Súðavík. Margrét Lilja á að baki fjölþætta starfsreynslu, m.a. í kirkju- og félagsstarfi sem hún telur að muni nýtast vel í kirkjuvarðarstarfinu. Hún hefur lokið diplóma námi í nútímadansi frá Listadansskóla Íslands, BA prófi frá íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands og BA prófi í guðfræði frá sama skóla. Samhliða starfi sínu í Víðistaðakirkju leggur Margrét Lilja stund á magister nám í guðfræði.

Á síðasta aðalsafnaðarfundi Víðistaðasóknar gaf Gunnar Hólmsteinsson ekki kost á sér til áframhaldandi setu í sóknarnefnd, en þar hefur hann starfað frá stofnun sóknarinnar, eða í 42 ár. Gunnar hefur verið gjaldkeri sóknarinnar allan þennan tíma – sem sennilega er einsdæmi í sögu kirkjusókna á höfuðborgarsvæðinu. Nýr gjaldkeri sóknarinnar er Ragnar Z. Guðjónsson. Sóknarnefnd Víðistaðakirkju bíður þau Margréti Lilju og Ragnar hjartanlega velkomin til starfa.

Hittu forsetann

Barnastarfið endaði með hjólreiðaferð barnanna og leiðtoganna Maríu og Bryndísar síðastliðinn miðvikudag til Bessastaða. Eftir að hafa skoðað kirkjuna þá settust krakkarnir á kirkjutröppurnar til að borða nestið sitt. Renndi þá ekki í hlað Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og tók börnin tali eins og hans var von og vísa. Fyrir þeim var það hápunktur vel heppnaðrar ferðar eins og vel má sjá á myndunum.