Ályktun vegna móttöku flóttafólks

Samþykkt sóknarnefndar og sóknarprests Víðistaðakirkju 9. september 2015:

Móttaka flóttamanna í Hafnarfirði 

Sóknarnefnd og sóknarprestur Víðistaðakirkju lýsa yfir fullum stuðningi við samþykkt fjölskylduráðs Hafnarfjarðarbæjar, frá 2. september síðastliðnum, um þátttöku í því mikilvæga verkefni að taka á móti og aðstoða hópa flóttafólks.

Víðistaðakirkja býður fram aðstoð sjálfboðaliða og starfsfólks auk aðstöðu í kirkju og safnaðarheimili, eftir því sem við á. Þá býður sóknarprestur upp á sálgæsluþjónustu eins og þörf krefur.

Víðistaðakirkja mun einnig, ásamt öðrum söfnuðum Þjóðkirkjunnar, efna til samskota í kirkjunni sunnudagana 13. og 20. september nk. til stuðnings Hjálparstarfi kirkjunnar í starfsemi sinni innan ACT – Alliance á Sýrlandi og Jórdaníu.

Hjálparstarf kirkjunnar er aðili að Alþjóðahjálparstarfi kirkna ACT – Alliance sem ásamt því að vinna að þróunarsamvinnu veitir neyðaraðstoð í kjölfar náttúruhamfara og vegna vopnaðra átaka. Aðstoðin er veitt án skilyrða og aðgreiningar og fer fram eftir alþjóðlegum stöðlum um neyðaraðstoð og ströngum siðareglum. Hjálparstarf kirkjunnar veitir neyðaraðstoð vegna stríðsátaka á Sýrlandi í gegnum ACT þar sem leitast er við að uppfylla grunnþarfir hinna stríðshrjáðu.  Áhersla er lögð á vernd og aðstoð til handa konum og börnum á vergangi í landinu og flóttafólki í nágrannalöndunum.

Sdsk.2015

Fjölskylduhátíð

Á sunnudaginn kemur, þann 13. september, verður fjölskylduhátíð í kirkjunni kl. 11:00. María og Bryndís leiða stundina ásamt sóknarpresti. Þá hefst sunnu- dagaskólinn aftur með nýju efni og meðal annars verður Nebbi kynntur til sögunnar.

Sdsk.2015

Fjölbreytt dagskrá fyrir börn á öllum aldri, verið með frá byrjun!

Efnt verður til samskota til stuðnings HK í starfi með flóttafólki.

 Samvera með foreldrum fermingarbarna eftir guðsþjónustu.

barnakór 2014 washed

Barnakór Víðistaðakirkju

barnakór 2014 washedÆfingar hjá Barnakór Víðistaðakirkju hefjast í næstu viku  og verða á fimmtudögum kl. 14.20.

Öll börn 8 ára og eldri (3.bekk) eru velkomin í kórinn og kostar ekkert að vera í kórnum.

Æfingar eru 45 mínútur í senn en stundum lengur ef sérstakar raddæfingar eru og er þá látið vita fyrirfram af því.  Börnin syngja 5-6 x yfir veturinn í fjölskylduguðsþjónustum eða á öðrum hátíðisstundum í kirkjunni, verðlaunadagar eru reglulega og ýmislegt annað skemmtilegt og uppbyggilegt fyrir börnin.  Lagt er kapp á að þau fái að vinna amk. 1x yfir veturinn með þekktum söngvurum og afraksturinn fluttur í fjölskyldustund. Reynt verður að stefna að því að komast á amk. eitt kóramót með kórinn.

Mikilvægt er að börnin séu skráð í kórinn svo foreldrar séu að fá allar upplýsingar í gegn um tölvupóst, en börnin fá líka alltaf miða með sér heim þegar eitthvað sérstakt er framundan.  Skráningarmiðar liggja frammi í kirkjunni og líka hægt að nálgast þá á æfingum.

Kórstjóri er Helga þórdís, organisti kirkjunnar og er hægt að fá nánaru upplýsingar hjá henni á netfangið helga@vidistadakirkja.is eða í síma 8683110.

Barnakór Víðistaðakirkju

Barnakór Víðistaðakirkju er skipaður börnum frá 8 ára (3. bekk) og eldri.  Nú er verið að taka við nýjum skráningum í kórinn og er best að hafa samband við Helgu Þórdísi kórstjóra á netfangið helga@vidistadakirkja.is til að skrá börnin.

Æfingar hjá barnakórnum verða á Fimmtudögum komandi vetur og verður nánari tímasetning auglýst fljótlega (þegar hún liggur betur fyrir).

Fermingardagar 2016

Nú eru skráningar hafnar fyrir fermingar vorið 2016. Send hafa verið út dreifibréf ásamt skráningarblöðum til barna í Víðistaðasókn sem fædd eru árið 2002 og foreldra þeirra. Þau sem hyggjast fermast í Víðistaðakirkju geta komið útfylltum skráningarblöðum í kirkjuna eða sent á póstfangið srbragi@vidistadakirkja.is.

Hér má sjá fermingardagana 2016 og nálgast skráningarform í Word eða PDF formi.

Fermingarstarfið verður fjölbreytt og skemmtilegt og verður kynnt ítarlega síðla sumars, en það hefst með sumarnámskeiði þann 17. ágúst nk.