Ragnheiður Gröndal syngur á sunnudaginn

Konur munu sjá um alla þjónustu í guðsþjónustunni á sunnudaginn kemur utan kirkjuvarðar Karls Kristensen. Sr. Kristín Þórunn Tómasdóttir héraðsprestur sér um prestsþjónustuna, Ragnheiður Gröndal um allan tónlistarflutning og síðan munu konur úr hópi messuþjóna einnig taka þátt í guðsþjónustunni.

Sunnudagaskólinn verður svo að venju uppi í suðursalnum. Þar er boðið up á skemmtilega dagskrá fyrir börn á öllum aldri.

Sjá nánar….

Ljósmyndasamkeppni

Víðistaðakirkja efnir til ljósmyndasamkeppni í tilefni af 25 ára vígsluafmæli kirkjunnar á næsta ári. Tilgangur keppninnar er að vekja athygli á þeim tímamótum, kirkjunni sjálfri, starfi hennar og fallegu umhverfinu á Víðistaðatúni. Þema keppninnar er „Víðistaðakirkja – Víðistaðatún“ og þurfa myndirnar því að vera teknar á því svæði.  Hver keppandi getur sent inn eins margar myndir og hann vill og þær mega vera teknar hvenær sem er. Nýheri styrkir keppnina og veitir vegleg verðlaun fyrir 3 bestu myndirnar, í 1. verðlaun er Canon Powershot A2400 IS Silver myndavél, 2. verðlaun Canon PIXMA iP4950 prentari og 3. verðlaun Pro 61,2 -151,4 cm þrífótur frá Camlink. Skilafrestur er 31. október nk. Myndir sendist á netfangið srbragi@vidistadakirkja.is merktar ljósmyndasamkeppni. Sjá nánar hér.

Bæn og biblíuleg íhugun

Miðvikudaginn 10. október verður haldið námskeið um bæn og biblíulega íhugun í Víðistaðakirkju í Hafnarfirði. Fjallað verður um fornar og nýjar aðferðir við að tengja saman bæn og lestur Biblíunnar. Sérstök áhersla verður lögð á aðferð sem nefnist Lectio Divina og felur í sér innlifun í ákveðnar biblíufrásagnir. Fá þátttakendur bæklinginn Skóli Orðsins í hendur. Kennari á námskeiðinu er María Ágústsdóttir, verkefnisstjóri á Biskupsstofu. Námskeiðið stendur yfir frá kl. 18 til kl. 20 og er boðið upp á hressingu í hléi. Ekkert þátttökugjald er en mikilvægt að skrá sig á netfangið kristin.arnardottir@kirkjan.is eða í síma 528 4000.

Hádegistónleikar

Fyrstu hádegistónleikar Víðistaðakirkju í haust verða haldnir á föstudagurinn kemur, þann 5. október kl. 12:00. Emil Friðfinnsson hornleikari flytur verk eftir Telemann, Messiaen, Dukas, Mendelssohn og Saint-Saëns. Meðleikari er Örn Magnússon píanóleikari.

Aðgangseyrir á tónleikana er kr. 1.000,- og síðan er hægt að kaupa léttan málsverð í safnaðarheimilinu eftir tónleika sem kostar kr. 500,-. Allur ágóði rennur í orgelsjóð kirkjunnar.