Frábært framtak

Í gærkvöldi afhentu krakkar í 10. bekk Víðistaðaskóla sóknarpresti peninga til styrktar þeim sem minna mega sín í Víðistaðasókn. Peningarnir voru afrakstur eftir bingó og basar sem þau héldu í matsal skólans. Þau höfðu fengið þessa góðu hugmynd og hrintu henni sjálf í framkvæmd af miklum dugnaði. Um er að ræða frábært og þakkarvert framtak í anda jólanna – og víst er að margir eiga eftir að njóta góðs af.

Aðventukvöldið kl. 17:00

Aðventukvöldið á sunnudaginn kemur, 1. sunnudag í aðventu, verður að þessu sinni kl. 17:00 síðdegis en ekki að kvöldi eins og undanfarin ár. Dagskrá samkomunnar er að mestu í höndum kóra kirkjunnar, organista og stjórnenda, en auk þess mun Guðrún Birgisdóttir leika á flautu. Ræðumaður verður Gylfi Ingvarsson vélvirki og fulltrúi í sóknarnefnd Víðistaðasóknar. Að venju verður Systrafélag kirkjunnar með kaffisölu að lokinni dagskrá. Sjá nánar

Úrslit ljósmyndakeppninnar

Úrslit í ljósmyndasamkeppni Víðistaðakirkju voru kynnt í dag og verðlaun afhent. Fyrsta sætið hlaut ljósmynd eftir ungan og efnilegan ljósmyndara Daníel Örn Smárason. Mynd hans ber vott um gott hugmyndaflug og frumleika um leið og hún fangar viðfangsefnið vel – og rammar það skemmtilega inn:

Sigþrúður Jónasdóttir fékk önnur verðlaun fyrir mynd sem tekin er í trjágöngum á Víðistaðatúni og í þrðja sæti var Helena Björk Jónasdóttir með mynd af mannlífinu á túninu á 17. júní. Sjá allar myndirnar hér.

Biblíuleg íhugun

Þriðjudaginn 6. nóvember nk. hefjast í kirkjunni bæna- og íhugunarstundir sem verða í boði vikulega á þriðjudögum kl. 18:00. Um er að ræða Biblíulega íhugun þar sem notuð er aðferð til að tengja saman bæn og lestur Biblíunnar – sem fela í sér innlifun í ákveðnar biblíufrásagnir. Bergþóra Baldursdóttir, María Guðmundsdóttir og Nína Dóra Pétursdóttir leiða stundirnar.

Gissur Páll á hádegistónleikum

Gissur Páll, tenórsöngvari, og Árni Heiðar Karlsson, organisti í Víðistaðakirkju, hafa verið á ferðinni um landið síðasta árið og munu nú spila á hádegistónleikum í Víðistaðakirkju föstudaginn 2. nóvember kl. 12:00 – 12:30. Á efnisskránni er úrval laga úr íslenska sönglagasafninu auk nokkurra ítalskra napólílaga og skandinavískra slagara. Tónleikarnir eru með óhefðbundnu sniði og óhætt að segja að allir muni hafa gaman af.

Aðgangseyrir að tónleikunum er kr. 1.000,- og ef fólk vill setjast niður í safnaðarheimilinu eftir tónleika og gæða sér á gómsætri súpu þá kostar það 500,- kr. til viðbótar. Allur ágóði rennur í orgelsjóð kirkjunnar.