Vetrardagar

Hátíðin „Vetrardagar í Víðistaðakirkju“ var fyrst haldin fyrir 10 árum síðan í október árið 2009. Í ár verður hátíðin haldin dagana 3. – 10. nóvember nk. og hefst með guðsþjónustu á allra heilagra messu og kirkjukaffi á eftir í safnaðarsal. Þá verður jafnframt opnuð myndlistarsýning eftir listakonuna Ragnheiði Líneyju Pálsdóttur. Þriðjudagskvöldið 5. nóvember verða tónleikar Flensborgarkórsins og Hrafnhildar Blomsterberg stjórnanda kl. 20:00. Boðið verður upp á spennandi fyrirlestur fimmtudaginn 7. nóvember kl. 20:00; þá mun Þorsteinn V. Einarsson koma í heimsókn og fræða feður og aðra áhugasama um „Leikreglur karlmennskunnar“. Föstudaginn 8. nóvember verður tónlistardagur barnanna og er þetta í tíunda skiptið sem hann er haldinn; að þessu sinni verður börnum í 1. – 4. bekk boðið á tónlistardagskrá á vegum tvíeykisins Dúó Stemma þar sem þemað er vibnáttan. Vetrardögum lýkur svo með fjölskylduhátíð og vöfflukaffi þann 10. nóvember.

Fjöldi á Fjölskylduhátíð

Sameiginleg fjölskylduhátíð þjóðkirkjusafnaðanna í Hafnarfirði og Garðabæ var haldin í Víðistaðakirkju og íþróttahúsi Víðistaðaskóla sunnudaginn 6. október sl. Hófst hátíðin með fjölbreyttri dagskrá í kirkjunni; þar kom m.a. fram rúmlega 100 barna kór safnaðanna, hljómsveit og leikarar sem fluttu stuttan leikþátt. Kórinn frumflutti tvo nýja sálma eftir Helgu Þórdísi organista og sr. Braga sóknarprest kirkjunnar. Sr. Jóna Hrönn í Vídalínskirkju stýrði stundinni. Að henni lokinni færðu kirkjugestir sig í íþróttahúsið þar sem boðið var upp á grillaðar pylsur, hoppukastala, andlitsmálun og fleira. Um 550 manns sóttu hátíðina.

Guðsþjónusta

Guðsþjónusta unnudaginn 27. október kl. 11:00. Kór Víðistaðasóknar syngur undir stjórn Ólafs Finnssonar og sóknarprestur þjónar með aðstoð messuþjóna. Kaffisopi á eftir í safnaðarheimilinu. Verið velkomin!

Tónlistarguðsþjónusta

Sunnudaginn 20. okt. kl. 11:00 mun Sönghópurinn Spectrum syngja undir stjórn Ingveldar Ýrar í tónlistarguðsþjónustu. Sr. Sigurður Kr. Sigurðsson þjónar með aðstoð messuþjóna. Hressing í safnaðarsal á eftir. Verið velkomin!

Bleik messa

Sunnudagskvöldið 13. október kl. 20:00 verður haldin bleik messa í tilefni af bleikum október. Delia Howser flytur hugleiðingu og Kór Víðistaðasóknar syngur undir stjórn Helgu Þórdísar organista. Sóknarprestur þjónar með aðstoð messuþjóna. Bleikar kökur í safnaðarheimilinu á eftir. Endilega mætið í bleiku. Verið velkomin!