Messa sunnudaginn 17. nóvember kl. 11:00. Kór Víðistaðasóknar syngur undir stjórn Helgu Þórdísar organista og sr. Stefán Már Gunnlaugsson þjónar með aðstoð messuþjóna. Hressing í safnaðarsal á eftir. Verið velkomin!

Boðið verður upp á Kristna íhugun og djúpslökun í kirkjunni á laugardagsmorguninn 16. nóvember kl. 9:30 – 10:30. Umsjón hafa Ástríður Kristinsdóttir hjúkrunarfræðingur og Bergþóra Baldursdóttir sjúkraþjálfari. Fyrir stundina er gott að taka með sér æfingadýnu eða teppi til að liggja á og eitthvað til að breiða yfir sig í slökuninni. Íhugunartónlist hljómar frá kl. 9:10. Verið hjartanlega velkomin!
Fyrirlestur fimmtudagskvöldið 7. nóvember kl. 20:00 í flutningi Þorsteins V. Einarssonar. Aðalmarkmið fyrirlestursins er að hrista upp í viðteknum hugmyndum um karlmennsku og kynhlutverk, benda á endurteknar birtingamyndir karlmennsku og staðalmyndir um kyn og svara því hvers vegna og hvernig karlar geti tekið þátt í að skapa jafnrétti í sínu umhverfi. Þorsteinn V. Einarsson flytur fyrirlesturinn en hann er meistaranemi í kynjafræði og sér um samfélagsmiðilinn Karlmennskan á Facebook og Instagram.
Guðsþjónusta á allra heilagra messu sunnudaginn 3. nóvember kl. 11:00. Látinna minnst. Kór Víðistaðasóknar syngur undir stjórn Helgu Þórdísar organista og Ólafur Freyr Birkisson syngur einsöng. Sóknarprestur þjónar með aðstoð messuþjóna. Veitingar í safnaðarheimili að guðsþjónustu lokinni. Þá um leið opnar myndlistarsýning Ragnheiðar Líneyjar Pálsdóttur í salnum. Verið velkomin!
Hátíðin „Vetrardagar í Víðistaðakirkju“ var fyrst haldin fyrir 10 árum síðan í október árið 2009. Í ár verður hátíðin haldin dagana 3. – 10. nóvember nk. og hefst með guðsþjónustu á allra heilagra messu og kirkjukaffi á eftir í safnaðarsal. Þá verður jafnframt opnuð myndlistarsýning eftir listakonuna Ragnheiði Líneyju Pálsdóttur. Þriðjudagskvöldið 5. nóvember verða tónleikar Flensborgarkórsins og Hrafnhildar Blomsterberg stjórnanda kl. 20:00. Boðið verður upp á spennandi fyrirlestur fimmtudaginn 7. nóvember kl. 20:00; þá mun Þorsteinn V. Einarsson koma í heimsókn og fræða feður og aðra áhugasama um „Leikreglur karlmennskunnar“. Föstudaginn 8. nóvember verður tónlistardagur barnanna og er þetta í tíunda skiptið sem hann er haldinn; að þessu sinni verður börnum í 1. – 4. bekk boðið á tónlistardagskrá á vegum tvíeykisins Dúó Stemma þar sem þemað er vibnáttan. Vetrardögum lýkur svo með fjölskylduhátíð og vöfflukaffi þann 10. nóvember.