Nú hefst sunnudagaskólinn að nýju og verður í kirkjunni á hverjum sunnudegi í vetur kl. 10:00. Börnin fá fjársjóðskistu að gjöf og safna í hana myndum sem þau fá við mætingu í sunnudagaskólann. Fyrsti sunnudagaskólinn í vetur verður næsta sunnudag 5. september kl. 10:00 í umsjá Benedikts Sigurðssonar. Verið velkomin!
Viðgerðir á Víðistaðakirkju
Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá neinum sem átt hefur leið hjá Víðistaðakirkju í sumar að þar hafa verktakar verið að störfum. Löngu tímabær viðgerð og enduruppbygging á þakkanti kirkjunnar fer fram auk viðhaldsvinnu á læstri málmklæðningu á þaki og endurnýjunar á áfellum. Einnig verður skipt um glugga og hurðir sunnan megin í kirkjubyggingunni. Það er Rafblikk ehf í Hafnarfirði sem annast framkvæmd verksins.
Að loknu þessu verki standa vonir til að loftun þaks stórbatni og minni hætta verði á leka í kirkjunni, sem því miður nokkuð hefur borið á í gegnum tíðina. Verkið er unnið undir umsjá og eftirliti verkfræðistofunnar VSB.
Áætluð verklok eru 1.september og markar þessi framkvæmd fyrsta áfanga á viðamiklu viðhaldsverkefni sem söfnuðurinn stendur frammi fyrir. Á næsta ári er ráðgert að halda áfram og endurnýja loftaplötur inni í kirkjunni, en þær eru á mörgum stöðum ónýtar vegna rakamyndunar. Einnig þarf að skipta út og endurnýja rakasperru inni í kirkjunni.
Heildarkostnaður við þessar framkvæmdir er áætlaður um 70 milljónir og verkefnið er því risavaxið fyrir söfnuðinn. Styrkur til framkvæmdarinnar hefur fengist úr Jöfnunarsjóði sókna á þessu ári, en það er mikið verk fram undan við að fjármagna framhald verksins. Fyrir utan að hýsa eitt merkasta kirkjulistaverk á Íslandi, freskumyndir Baltasar Samper, þá er Víðistaðakirkja einnig samveru og samkomustaður sóknarbarna og allra annarra Hafnfirðinga sem þangað leita. Fjöldi athafna, s.s. funda, tónleika og skólaútskrifta og fleiri viðburða á vegum Hafnarfjarðarbæjar og hinna ýmsu samtaka og félaga, fara fram í Víðistaðakirkju á ári hverju og því er mikilvægt að vel takist til í þessu mikla verkefni.
Nýr organisti
Ráðinn hefur verið nýr organisti við Víðistaðakirkju, en Helga Þórdís Guðmundsdóttir sem starfað hefur sem organisti sl. 9 ár lét af störfum nú í sumar er hún tók við stöðu skólastjóra Listaskólans í Mosfellsbæ. Nýi organistinn heitir Sveinn Arnar Sæmundsson, en hann hefur verið organisti og kórstjóri við Akraneskirkju í 20 ár. Sveinn Arnar lauk kantorsprófi frá Tónskóla Þjóðkirkjunnar árið 2006 og einnig einleikaraprófi í orgelleik árið 2010. Hann hefur hlotið 8. stig í söng og lauk fyrir 2 árum diplómanámi í viðburðastjórnun frá Háskólanum á Hólum. Sveinn Arnar er Skagfirðingur að uppruna og hefur á starfsferli sínum verið organisti í Skagafirði, tónlistarkennari og stjórnað ýmsum kórum m.a. Kammerkór Akraness, Skagfirska Kammerkórnum og Karlakórnum Heimi svo einhverjir séu nefndir. Þá var hann einn af stofnendurm Kalman-listafélagsins á Akranesi árið 2013 sem staðið hefur fyrir fjölda viðburða þar í bæ. Sveinn Arnar var valinn Bæjarlistamaður á Akranesi árið 2012. Er Sveinn Arnar boðinn velkominn til starfa í Víðistaðakirkju.
Sumarmessa
Sumarmessa í Garðakirkju sunnudaginn 22. ágúst kl. 11:00. Sr. Bragi J. Ingibergsson þjónar og Jóhann Baldvinsson spilar undir almennan söng. Á eftir verður messukaffi í Króki þar sem Benedikt Sigurðsson kirkjuvörður í Víðistaðakirkju leikur á harmóniku. Verið velkomin!
Hjólreiðamessa
Hin árlega hjólreiðamessa verður sunnudaginn 20. júní. Hjólað verður frá kirkjunun samkvæmt áætlun sem sjá má á meðfylgjandi auglýsingu og endað í sumarmessu í Garðakirkju kl. 11:00. Veitingar í Kaffi Króki á eftir.

Sumarkirkjan
Sumarkirkjan er samstarfsverkefni kirknanna í Hafnarfirði og Garðabæ, en þær standa að sumarmessum í Garðakirkju á Álftanesi alla sunnudaga kl. 11:00 í júní, júlí og ágúst. Sjá meðfylgjandi dagskrá.

Blómasala Systrafélagsins
Hin árlega blómasala Systrafélags kirkjunnar hófst í dag 26. maí kl. 11:00. Við blómasöluna verður kirkjutorgið fullt af lífi og litum og nú við opnunina bættust harmónikutónar við er Benedikt kirkjuvörður lék á nikkuna. Blómasalan er helsta fjáröflun Systrafélagsins og stendur nú yfir til 1. júní nk. eða meðan birgðir endast.
Dægurlagamessa
Dægurlagamessa verður sunnudagskvöldið 30. maí kl. 20:00. Kór Víðistaðsóknar syngur undir stjórn Helgu Þórdísar organista og sóknarprestur þjónar. Aðalsafnaðarfundur verður sama dag kl. 18:00 í safnaðarheimilinu á undan guðsþjónustunni. Á dagskrá verða venjuleg aðalfundarstörf. Verið velkomin!
Hátíðarhelgistund
Hátíðarhelgistund verður á hvítasunnudagskvöld 23. maí kl. 20:00. Kór Víðistaðasóknar syngur undir stjórn Helgu Þórdísar organista og sr. Gunnlaugur Stefánsson þjónar með aðstoð messuþjóna kirkjunnar. Verið velkomin!
Aðalsafnaðarfundur
Aðalsafnaðarfundur verður haldinn sunnudaginn 30. maí nk. kl. 18:00. Á dagskrá fundarins verða venjuleg aðalfundarstörf. Að loknum fundi verður svo dægurlagamessa í kirkjunni kl. 20:00. Verið velkomin!