Guðsþjónusta á sunnudaginn

Næstkomandi sunnudag 24. nóv., sem er síðasti sunnudagur kirkjuársins, verður guðsþjónusta kl. 11:00 að venju. Þá mun Kór Víðistaðasóknar syngja undir stjórn Helgu Þórdísar Guðmundsdóttur og mun eingöngu flytja sálma úr nýju sálmahefti þar sem kynntir eru nýir sálamar fyrir sálamabók íslensku Þjóðkirkjunnar. Sóknarprestur þjónar og messuþjónar aðstoða við helgihaldið.

Gaflarakórinn syngur í tónlistarguðsþjónustu

Á sunnudaginn kemur þann 17. nóvember verður tónlistarguðsþjónusta kl. 14:00 – athugið breyttan messutíma að þessu sinni. Þá mun Gaflarakórinn, kór félags eldri borgara, syngja undir stjórn Kristjönu Þórdísar Ásgeirsdóttur við meðleik Helgu Þórdísar Guðmundsdóttur organista kirkjunnar. Sr. Gunnar Jóhannesson héraðsprestur þjónar við guðsþjónustuna.

Sunnudagaskólinn verður á sama tíma og venjulega, kl. 11:00 og fer fram uppi í suðursal kirkjunnar. Fjölbreytt og skemmtileg stund fyrir börn á öllum aldri.

Kyrrðarbæn (Centering Prayer)

Boðið verður upp á tveggja kvölda námskeið um kyrrðarbæn (Centering Prayer) hér í Víðistaðakirkju fimmtudagskvöldin  24. og 31. okt. kl. 19:30. Leiðbeinendur eru sr. Ragnheiður Jónsdóttir og Ingunn Bjarnadóttir. Ekkert þátttökugjald. Ný bók um Kyrrðarbænina  „Vakandi hugur, vökult hjarta“ verður til sölu á staðnum.

Kyrrðarbænin (Centering Prayer) byggir á aldagamalli hefð sem síðan var endurvakin upp úr 1970 og hefur verið að ná sífellt meiri útbreiðslu um heiminn síðan þá. Bænin byggir á orðlausri nálgun við Guð, þar sem biðjandinn tekur ákvörðun um að leitast við að opna hjarta sitt fyrir nærveru Guðs og verkan í lífi sínu. Iðkanin felst síðan í því að læra að leiða hjá sér truflanir sem sækja á þann tíma sem bænin stendur yfir. Þetta er eitt einfaldasta form íhugunarbænar sem um getur og geta allir lært það og stundað. Hægt er að nálgast fleiri upplýsingar um Kyrrðarbænina á heimasíðunni www.kristinihugun.is.

 

Safnað fyrir Landspítalann

Menningarmessa

Fjáröflunarmálsverður – Listaverkasala – Kökubasar!

Söfnun Víðistaðakirkju fyrir línuhraðli á LSH verður tengd árlegri hátíð kirkjunnar sem nefnd er „Vetrardagar í Víðistaðakirkju“ og stendur yfir í vikutíma.  Meginþungi söfnunarinnar fer fram sunnudaginn 20. október nk. Dagskráin hefst á svokallaðri „menningarmessu“ þar sem hlutverk kirkjukórs undir stjórn Helgu Þórdísar Guðmundsdóttur verður enn stærra en á venjulegum sunnudegi og auk þess mun Sigurður Skagfjörð baritónsöngvari syngja einsöng. Þá munu þeir Karl kirkjuvörður og sr. Bragi sóknarprestur lesa upp frumsamin ljóð sem myndskreytt verða með ljósmyndum hins síðarnefnda.

Að guðsþjónustu lokinni gefst kirkjugestum kostur á að snæða fjáröflunarmálsverð í safnaðarsalnum og kostar hann 1.000,- kr fyrir manninn. Eftir matinn hefst svo sala (uppboð) myndverka (málverka/ljósmynda), þar sem í boði verða verk eftir Baltasar, Jón Thor Gíslason, Jón Gunnarsson, Tarnús (Grétar Magnús Guðmundsson), Röggu, HS, Maríu Eiríksdóttur, Karl Kristensen og Braga J. Ingibergsson.

Jafnframt fer fram veglegur kökubasar þar sem gestir og gangandi geta keypt sér dýrindis hnallþórur og/eða brauðtertur á sunnudagskaffiborðið. Systrafélagskonur, sóknarnefndarfólk, kórfólk, messuþjónar og starfsfólk kirkjunnar stendur að basarnum.

Allur ágóði af þessum verkefnum rennur óskiptur í söfnunina – og það gerir einnig innkoma á hádegistónleikum föstudaginn 25. okt. er Gréta Hergils sópran syngur við meðleik Arnhildar Valgarðsdóttur. Auk þess verður tekið við frjálsum framlögum alla vikuna og jafnframt minnt á söfnunarsíma – sjá hér til hliðar.